Skip to main content

Vilja að eigendur húsgrunna við Skólaveg skýri áform sín

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. sep 2025 16:07Uppfært 04. sep 2025 16:07

Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar segir tíma kominn til að eigandi húsgrunnanna að Skólavegi 98-112 á Fáskrúðsfirði skýri að minnsta kosti áform sín með mannvirkin til framtíðar. Sveitarfélagið tryggði öryggi á svæðinu síðasta vetur.


Fyrsta skóflustungan að grunnunum var tekin árið 2006 en móðurfélag byggingafélagsins varð gjaldþrota strax í byrjun hrunsins árið 2008. Fjarðabyggð eignaðist svæðið en seldi frá sér aftur í von um uppbyggingu. Alls var áætlað að byggja 16 íbúðir í fyrsta áfanga.

Málefni svæðisins voru rædd á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Samkvæmt bókun var farið yfir stöðu framkvæmda og úrræði vegna tafa á að byggingarnar yrðu teknar í notkun. Henni er lokað með þeim orðum að unnið verði að málinu og það síðan tekið fyrir að nýju.

Ekki hægt að krefjast framkvæmda


Húsgrunnarnir hafa löngum verið þyrnir í augum Fáskrúðsfirðinga, meðal annars vegna umgengni og öryggis. Ragnar Sigurðsson segir sveitarfélagið vera búið að kanna ýmis úrræði til að þrýsta á byggingar á svæðinu en þau séu ekki virk.

„Það er óskandi að eigandinn hæfi framkvæmdir eða að minnsta kosti sýndi hvað hann ætli sér að gera í framtíðinni. Við getum hins vegar ekki krafist þess,“ segir hann.

Öryggi tryggt


Sveitarfélagið hefur hins vegar gengið á eftir því að öryggi í kringum grunnana sé tryggt og það gæti helst gripið til aðgerða ef hættuástand skapaðist frá þeim. Leiksvæði fyrir börn er hinum megin götunnar.

„Við höfum fyrst og fremst vakið athygli á umhirðu, fokhættu og öðru slíku. Við slíkum ábendingum hefur verið brugðist. Svæðið var girt af síðasta vetur eftir ábendingar íbúa. Fjarðabyggð gerði það á kostnað eiganda og það stóð ekki á að fá þann reikning greiddan.“

Óþolandi að góðar lóðir séu tepptar


Að sögn Ragnars er nýjasta vendingin í sögu húsgrunnanna sú að umsjónaraðili, sem tók við þeim fyrir nokkrum árum með framkvæmdir í huga, hefur sagt sig frá þeim og skilað aftur til raunverulegs eiganda.

„Við viljum ræða við hann og skoða hvort rétt sé að bærinn taki þetta til sín eða hann sýni hvað hann hyggist gera. Það eru allir hér sammála um að það sé óþolandi að ekkert gerist þarna. Að fyrir framan Fáskrúðsfirðinga séu mögulega ónýtir húsgrunnar á frábærum byggingarlóðum.“

Aðspurður svarar Ragnar að hann þekki ekki ástand grunnanna, hvort yfir höfuð sé hægt að byggja á þeim. Ljóst er hins vegar að það batnar ekki eftir því sem árin líða en trjágróður er farinn að vaxa upp úr svæðinu.