Skip to main content

Vilja að HEF skilgreini sig sem þekkingarfyrirtæki

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. feb 2024 09:44Uppfært 22. feb 2024 09:46

Tími er til kominn að veitustofnun Múlaþings, HEF-veitur, hætti að kynna sig út á við sem hvert annað veitufyrirtæki að mati þriggja sérfræðinga. Þekkingarfyrirtæki sé nærri lagi.

Ástæðan er sú mikla þekking sem innan stofnunarinnar hefur safnast saman gegnum tíðina. Svo mikil þekking að óhætt er orðið að tala um hreint og beint þekkingarfyrirtæki. Það álit Gríms Björnssonar, ráðgjafa og jarðfræðings, sem fyrir utan að hafa sjálfur reynslu af störfum fyrir HEF á sínum tíma hefur veitt ýmsum þjóðum jarðhitaráðgjöf hist og her í veröldinni um 35 ára skeið. Auk hans hafa þeir Glúmur Björnsson og Helgi Ómar Bragason einnig kynnt hugmyndir sínar um hvernig megi auka alla jarðvísindaþekkingu innan fyrirtækisins.

Grímur segir óumdeilt að margra áratuga reynsla sé sannarlega verðmæti út af fyrir sig og brýnt sé að gögn tengd rannsóknum og vísindastarfi innan HEF verði skýr eign fyrirtækisins og gögnin þar geymd.

„Ég tel það eðlilegt skref fyrir HEF. Sjálfur hef ég starfað í þessum geira víða um heim í langan tíma og byggi það meðal annars á því að mörg slík fyrirtæki erlendis sem hafa reynslu af vel jarðhitaverkefnum og heitavatnsdreifingu kalla sig mörg fremur þekkingarfyrirtæki en eitthvað annað. Þar sem saman kemur mikil og löng þekking á tilteknu sviði sem endar í velheppnuðum fyrirtækjarekstri er eðlilegt að mínu mati að kalla það þekkingarfyrirtæki. Það kemur auðvitað ekkert af sjálfu sér, menn þurfa að sækja þekkingu hingað og þangað til að láta hlutina ganga en með tíð og tíma verða starfsmenn slíkra fyrirtækja snjallari og snjallari.“

Grímur segir sérþekkingu HEF meðal annars felast í að finna hentug jarðhitasvæði, bora á þeim svæðum, dæla upp úr þeim ef vel gengur og ekki síst að hanna og búa til dreifikerfi sem nýtist bæjum eða þorpum þar sem íbúar fá heitt vatn á góðu verði.

„Það er ekkert einfalt við þetta ferli. Sjálfur kem ég inn í þennan geira árið 1982 þegar viðvarandi var vatnsskortur, kuldi og olíunotkun mikil. Það var rosaleg barátta við að breyta þessu en menn komust í gegnum þetta sökum þess að þeir sem stýrðu hlutunum voru ákveðnir í að láta þetta ganga. Auðvitað er alltaf einhver heppnisstimpill við að finna vatnið en þetta er eins og með sjómennskuna að þeir fiska sem róa. Þetta hefur skilað sér í því í dag að þekkingin hefur aukist jafnt og þétt innan fyrirtækisins, hitaveitan er nú örugg og heita vatnið berst til íbúa á góðu og samkeppnishæfu verði.“

Sjálfur segist Grímur dást mikið að því að í hvert sinn sem hann heimsæki litlar velheppnaðar hitaveitur hvar sem er í veröldinni hve mikil þekking á öllu ferlinu sé til staðar. Sú þekking og reynsla séu mikil verðmæti.

Fyrir sitt leyti tók stjórn HEF ágætlega í þessar vangaveltur þremenninganna en ákvarðanir í þessa átt geymdar fram að næsta aðalfundi.

HEF reynir nú að finna nægt heitt vatn svo kynda megi hús á Djúpavogi í næstu framtíð. Ýmis teikn gefa fyrirheit um að góðar lindir séu nógu nálægt til að það gangi eftir.