Vilja að lokið verði við hönnun Suðurfjarðavegar í ár

Bæjarráð Fjarðabyggðar þrýstir á um að framkvæmdum við Suðurfjarðaveg verði flýtt með því að ljúka hönnun vegarins í ár þannig hann verði tilbúinn til útboðs.

Þetta kemur fram í bókun ráðsins frá fundi þess á mánudag. Þar er lögð áhersla á að vegagerð í botni Reyðarfjarðar verði lokið í síðasta lagi í lok árs 2025. Bent er á að brúin yfir Sléttuá sé umferðarþyngsta einbreiða brú Austurlands og sömuleiðis ein sú elsta á Hringveginum í dag.

Hún beri ekki þungavinnuvélar sem þýði að fara þurfi með þær yfir Sléttuá á vaði, með tilheyrandi kostnaði, töfum og raski á umhverfi. Vegurinn sé líka tenging atvinnulífs Suðurfjarða við Mjóeyrarhöfn og því sé brúin flöskuháls í uppbyggingu atvinnu í Fjarðabyggð.

Bæjarráð segir að síðan þurfi að hefja endurgerð annarra vegkafla og brúa á Suðurfjarðavegi, sem hafi ekki verið endurbættur síðan gamli vegurinn var klæddur fyrir 35 árum.

Í bókuninni segir að vaxandi umferð flutninga, ferðamanna og annarra kalli á tafarlausar úrbætur vegarins. Samgöngur séu forsenda uppbyggingar atvinnulífs sem kalli á aukna umferð, meðal annars vegna sóknar í skóla, atvinnu og þjónustu auk þess sem tafir á úrbótum sé veruleg hindrun fyrir nýsköpun í ferðaþjónustu.

Rifjað er upp að á veginum hafi orðið mörg alvarleg slys undanfarin ár enda sé hann víða metinn hættulegur samkvæmt alþjóðlegum umferðarstöðlum með fjölmörgum blindhæðum, hlykkjum og einbreiðum brúm.

Drög að samgönguáætlun liggja fyrir Alþingi. Þar er ekki gert ráð fyrir nýframkvæmdum í Fjarðabyggð fyrr en á síðari hluta fyrsta tímabils, 2024-28. Bæjarráð segir það óásættanlegt fyrir bæði íbúa og atvinnulíf sveitarfélagsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.