Skip to main content

Vilja að ríkið bjóði út leyfi til fiskeldis í Mjóafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. jún 2025 11:36Uppfært 23. jún 2025 11:38

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur skorað á atvinnumálaráðherra að hefja undirbúning að því að leyfi til fiskeldis í Mjóafirði verði boðin út. Til þess þarf að uppfæra burðarþolsmat. Formaður bæjarráðs segir Mjófirðinga vilja eldi til að byggja upp atvinnu á staðnum.


Bæjarráð Fjarðabyggðar sendi nýverið frá sér bókun þar sem það ítrekar fyrri bókanir um að mikilvægt sé að bjóða án tafar út leyfi til eldis í Mjóafirði.

Áður fyrr var það svo að fiskeldisfyrirtæki óskuðu sjálf eftir leyfum innan þeirra reglna sem þá giltu. Því var síðan breytt árið 2019 í þá átt að eldissvæði yrðu boðin út. Reglugerð um útboðin, sem kveður á um að ráðherra ákveði hvenær og hve mörgum eldissvæðum sé úthlutað, tók gildi árið 2020.

Burðarþolsmat upp á tíu þúsund tonn


Fyrir liggur burðarþolsmat á Mjóafirði um að þar sé hægt að ala 10 þúsund tonn af laxi. Það hefur hins vegar ekki verið uppfært. Þá hefur einnig strandað á því að ný lög um lagareldi hafa ekki verið samþykkt og staða þeirra reyndar óljós eftir ríkisstjórnarskiptin í vetur.

Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar og oddviti Sjálfstæðisflokksins, telur þó að lögin eigi ekki að hindra útboð í Mjóafirði. „Lögin hafa áhrif en það ætti ekki að stranda á þeim. Mjóifjörður er nýtt eldissvæði sem fellur undir útboðsskyldu. Það eru ýmsar ástæður en að mínu viti eru færri ljón í veginum en oft áður. Í raun strandar þetta ekki á öðru en pólitískum vilja ráðherra.“

Mjófirðingar hafa reynslu af fiskeldi


Hann segir áhuga hjá fiskeldisfyrirtækjum að hefja starfsemi í Mjóafirði og meðal íbúa. „Í Mjóafirði hefur áður verið fiskeldi. Íbúar hafa kallað eftir atvinnuuppbyggingu og þar er laxeldi meðal þess sem kemur til greina.“ Í bókun bæjarráðs segir að „núverandi kyrrstaða sé ekki í samræmi við jákvæða byggðaþróun, né heldur þá ábyrgð sem fylgi því að styðja við brothættar byggðir.“

Kannanir hafa sýnt að 60-70% Íslendinga séu á móti fiskeldi í opnum sjókvíum. Andstaðan er þó heldur minni á Austurlandi og Vestfjörðum, þar sem mest eldi er stundað, en öðrum landshlutum.

„Landsmenn hafa efasemdir en minnsta andstaðan er þar sem menn hafa séð ávinning af eldinu. Mjófirðingar hafa séð ávinning af eldi annars staðar í Fjarðabyggð og þurfa atvinnuuppbyggingu til að snúa við byggðaþróuninni. Þess vegna held ég að laxeldi sé einmitt það sem Mjófirðinga vantar.“