Skip to main content

Vilja að ríkið meti áhrif hækkunar veiðigjalda á sjávarbyggðir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. apr 2025 16:16Uppfært 01. apr 2025 16:20

Bæði meiri- og minnihluti bæjarráðs Fjarðabyggðar eru sammála um að nánar þurfi að meta áhrif hækkunar veiðigjalds á sjávarbyggðir landsins áður en hún komi til framkvæmda. Gagnrýndur er skammur tími til umsagna um frumvarpið og hvatt til þess að hluti veiðigjaldsins verði bundinn við þá stað þar sem það verður til.


Þetta kemur fram í bókunum sem samþykktar voru á fundi bæjarráðs í gær. Heldur harðar er tekið til orða í bókun meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks en þeirri bókun sem minnihluti Fjarðalistans lagði fram.

Vika er í dag síðan í samráðsgátt stjórnvalda voru birt drög að breytingu um lögum á veiðigjaldi. Það felur í sér umtalsverða hækkun á veiðigjaldi kolmunna, síldar og makríls, uppsjávartegunda sem austfirskar útgerðir hafa verið byggðar upp í kringum. Þá breytast einnig reikniforsendur á ýsu og þorski.

Stór hluti veiðigjalds frá Austfjörðum


Meirihlutinn telur breytinguna „illa tímasetta og óábyrga,“ einkum í ljósi loðnubrests og núverandi skattaumhverfis sjávarútvegsfyrirtækja. Vísað er til þess að heildarskattgreiðslur af sjávarútvegi eða skattspor, þar með talið af launum starfsfólks, sé um 50 milljarðar króna. Stór hluti komi frá Austurlandi. Samkvæmt tölum frá Fiskistofu námu veiðigjöld síðasta árs 10,3 milljörðum króna, þar af kom rúmur 1,3 milljarður eða um 12% frá Austurlandi.

Í bókuninni er minnt á mikilvægi sjávarútvegs í Fjarðabyggð. Fyrirtæki þar hafi sýnt ábyrgð, skapað fjölda starfa, fjárfest í tækni og þjónustu í nærsamfélagi og tekið þátt í að byggja upp samfélagið með að styrkja menningu, íþróttir og félagslíf fyrir utan að borga skatta og veiðigjöld.

Í frumvarpinu er talsvert lagt upp úr samanburði við Noregi og sýnt að kílóverð afla hér sé töluvert lægra en þar. Meirihlutinn í bæjarráði Fjarðabyggðar telur þennan samanburð ósanngjarnan þar sem norsk sjávarútvegsfyrirtæki njóti ríkisstyrkja sem ekki séu í boði hérlendis. Íslenskur sjávarútvegur standi á markaðslegum forsendum, greiði fulla skatta og kosti sjálfur innviði og þróun.

Of skammur tími gefinn til samráðs


Meirihlutinn lýsir alvarlegum áhyggjum af því að hækkun gjaldanna leiði til minni fjárfestinga í sjávarútvegi á Austurlandi og dragi úr samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs, bæði á vinnumarkaði og í útflutningi. Þá verði keðjuverkandi áhrif á afleidd störf og lífsgæði og loks dragi saman í uppbyggingu atvinnulífs í Fjarðabyggð.

Þess vegna hvetur meirihlutinn til þess að áformin verði endurskoðuð strax. Óskað er eftir að ríkið leggi fram heildstæða greiningu á áhrifum fyrirhugaðra breytinga á byggð, atvinnu og fjárfestingu í sjávarútvegar. Bæjarráðið krefst þess einnig að samráðsfresturinn verði lengdur en hann rennur að óbreyttu út á fimmtudag. Sveitarfélög þurfi mögulega að afla gagna til að styrkja umsagnir sínar.

Tryggja verður að hluti gjaldanna skili sér á staðinn


Í bókun Fjarðalistans segir að mikilvægi sjávarútvegs fyrir atvinnulíf í Fjarðabyggð, samfélagslega velsæld og tekjur sveitarfélagsins sé óumdeilt. Þess vegna verði að fara fram ítarlegt mat á áhrifum frumvarpsins á þau samfélög sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á sjávarútvegi.

Þess vegna sé mikilvægt að fram fari heildstætt mat á áhrifum frumvarpsins á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja, fyrirtækja sem þjónusti þau og samfélög sem byggi á sjávarútvegi. Að sama skapi verði að tryggja að hluti þess veiðigjalds sem innheimt sé skili sér til viðkomandi byggðarlaga. Nauðsynlegt sé að tryggja gott samráð við sveitarfélög sem eiga mikið undir sjávarútvegi.

„Fjarðalistinn leggur áherslu á að álagning veiðigjalda sé sanngjörn, fyrirsjáanleg og styðji við áframhaldandi verðmætasköpun, nýsköpun og stöðugleika í sjávarútvegi og nærumhverfi hans.“