Vilja að stjórnvöld skoði búsetuskyldu á lögbýlum
Heimastjórn Fljótsdalshéraðs telur að skoða þurfi í nýrri landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til ársins 2040 hvort ástæða sé til að koma á búsetuskyldu á lögbýlum til að styðja við kynslóðaskipti og nýliðun í landbúnaði.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu fyrir landið í heild til ársins 2040 en þá ályktun má lesa nánar hér. Markmið slíkrar stefnu að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans með sjálfbæra þróun að leiðarljósi til framtíðar.
Tillagan hefur verið send sveitarfélögum í landinu til umsagnar og þykir flestum um jákvætt skref að ræða en sérstök landbúnaðarstefna til lengri tíma hefur aldrei verið sett hérlendis áður.
Heimastjórn Fljótsdalshéraðs fagnar tillögunni en ítrekar að sérstök aðgerðaáætlun vegna þessa, styðji að fullu við fyrirhugaða stefnu þannig að rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi geri starfsaðstæður og starfskjör bænda sambærileg við það sem gerist á almennum vinnumarkaði.
Þá telur heimastjórnin brýnt að aðgerðaáætlun styðji við að sem fyrst komi til framkvæmda leiðir til að styðja við kynslóðaskipti og nýliðun í bændastétt. Þar gæti verið ráð að setja búsetuskyldu á lögbýlum og þar vísað til mikilla uppkaupa jarða af hálfu annarra en bænda en slík jarðakaup hafa aukist stórum um land allt á síðasta áratug.