Skip to main content

Vilja auðvelda aðgengi hjólandi og gangandi að Hólmanesi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. mar 2022 13:42Uppfært 02. mar 2022 13:44

„Við erum að skoða þetta um þessar mundir en þarna er um að friðland að ræða og því þurfa fleiri aðilar að koma að þessu ferli,“ segir Marinó Stefánsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs hjá Fjarðabyggð.

Tillögur hafa verið settar fram af hálfu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins um byggingu göngu- og hjólastígs milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og er vinna við kostnaðaráætlun vegna þess þegar hafin.

Hugmyndin með slíkum stíg er bæði að auðvelda gangandi og hjólandi að komast milli bæjarkjarnanna í framtíðinni en ekki síður að bæta aðgengi að hinu vinsæla útivistarsvæði Hólmanesi mitt á milli bæjanna.

Nesið allt er bæði friðlýst sem friðland og fólkvangur og hefur verið allar götur frá árinu 1973. Verndarsvæðið nær allt frá Hörganesi Reyðarfjarðarmegin nánast að Ytri-Bólklettseyri Eskifjarðarmegin og langt upp hálsinn að hinu þekkta Völvuleiði.

Það þarf því samþykki frá Umhverfisstofnun fyrir öllu raski og breytingum á svæðinu eins og stígagerð hefði óneitanlega í för með sér.

Mynd: Hólmanesið er mikil náttúruperla og þangað sækir töluverður fjöldi til að njóta útivistar og magnaðs útsýnis. Mynd Umhverfisstofnun.