Vilja bara nota Borgarfjörð en ekki Bakkagerði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. apr 2025 16:37 • Uppfært 09. apr 2025 16:37
Heimastjórn Borgarfjarðar eystra skoðar hvort rétt sé að hætta að nota heitið Bakkagerði þegar fjallað er um þéttbýlið í firðinum í opinberum gögnum. Heimastjórnin segir mismunandi heiti skapa misskilning.
Heimastjórn ákvað á fundi sínum í síðustu viku að óska eftir umsögn Örnefnanefndar á mögulegri nafnabreytingu. Hún telur heitið Bakkagerði skapa rugling þar sem það sé ýmist notað eða Borgarfjörður eystra.
Alda Marín Kristinsdóttir, starfsmaður heimastjórnarinnar, segir að þorpið á Borgarfirði hafi byggst upp í landi Bakkagerði sem hafi verið hjáleiga frá bænum Bakka. Bakkagerðisnafnið hafi fylgt þorpinu en sé orðið sjaldan notað í daglegu tali í dag.
Með tilkynningu í Hagtíðindum í júlí 1968 var farið að nota Bakkagerðisheitið í opinberum gögnum. Alda Marín segir það skapa misskilning. Þannig sé Bakkagerði merkt á kortum en póstnúmerið sé bundið við Borgarfjörð. Fleiri dæmi séu fyrir hendi, til dæmis séu nöfnin notuð til skiptis í drögum að nýju aðalskipulagi Múlaþings.
Áform heimastjórnarinnar eru þó ekki óumdeild og hafa heitar umræður skapast um áformin í hópnum Borgarfjörður eystri á Facebook. „Það þykir mörgum vænt um nafnið og það verður ekkert bannað að tala um Bakkagerði,“ segir Alda Marín.
Vert er að geta þess að um í júlí 1968 fór Hagstofan að nota önnur nöfn en áður á fleiri austfirsk þorp – og reyndar fleiri. Margar þeirra hafa fest sig betur í sessi en Bakkagerði. Þá var farið að skrá Bakkafjörð í staðinn fyrir Höfn, Fáskrúðsfjörð í staðinn fyrir Búðir, Reyðarfjörð í staðinn fyrir Búðareyri, Stöðvarfjörður í staðinn fyrir Kirkjubólsþorp og Breiðdalsvík í staðinn fyrir Þverhamarsþorp.
Að lokum má minnast á að í bókun heimastjórnarinnar er þó ekki komið beint inn á það þrætuepli um hvort tala skuli um Borgarfjörð eystra eða eystri. Heimastjórnin skrifar þó „eystra“ og setur i þar innan sviga á eftir.