Vilja eina af þyrlum gæslunnar til að þjóna Norður- og Austurlandi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. okt 2023 12:05 • Uppfært 17. okt 2023 12:09
Allir þingmenn Norðausturkjördæmis, auk nokkurra þingmanna úr bæði stjórn og stjórnarandstöðu, lögðu í síðustu viku fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði með starfsstöð á Akureyri allt árið um kring.
Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Auk þingmannanna úr Norðausturkjördæmi standa að tillögunni fimm þingmenn Sjálfstæðisflokks og formaður Viðreisnar.
Í tillögunni er rakið hvernig þyrla á Akureyri myndi efla viðbragð við björgunarstörf á Norður- og Austurlandi en ekki síður á hafsvæðinu úti fyrir landinu og á norðurslóðum. Komið er inn á að bæði NATO og Danir séu að efla viðbragð sitt í Norður-Atlantshafi auk þess sem í skýrslu um þjóðaröryggi Íslands á síðasta ári hafi komið fram að tryggja þurfi betur vöktun á hafinu í kringum landið.
Efling sjúkraflugs er annar kostur. Í fylgigögnum tillögunnar má sjá að þyrlurnar eru vart notaðar við sjúkraflug á austanverðu landinu, enda flugtími þeirra úr höfuðborginni það langur. Flutningsmenn segja að þyrlur gætu aukið öryggi á austanverðu landinu, einkum þar sem fjarlægðir eru miklar og veður þannig að ekki sé hægt að nota venjulegt sjúkraflug.
Bent er á samþættingu við sjúkraflugið á þann hátt að læknar á Akureyri geti mannað þyrluflugið eins og þeir geri í dag með sjúkraflugið. Það sé ein veigamesta röksemdin með að hafa þyrluna á Akureyri.
Flutningsmenn tillögunnar vara einnig við því að áhætta sé í að hafa allar þyrlurnar staðsettar í Reykjavík, til dæmis gangi þar yfir vont veður á sama tíma og veita þurfi hjálp annars staðar á landinu. Þingmennirnir vekja einnig athygli á að vel hafi tekist til þegar ein þyrlan var staðsett á Akureyri í byrjun ágúst. Þá var þyrlan þar til taks í mars þegar snjóflóðahætta var á Austfjörðum.
Hallarekstur Landhelgisgæslunnar
Áætlaður rekstrarkostnaður þyrlu á ári á Akureyri er um 500 milljónir króna og uppbygging flugskýlis metin á 200-300 milljónir. Bent er á að auk læknanna sé til staðar þar fleira heilbrigðisstarfsfólk og atvinnuslökkvilið fyrir utan að tveir af sex þyrluflugstjórum gæslunnar búi á Norðurlandi.
Í óundirbúnum fyrirspurnum vitnaði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, til tillögunnar um þyrluna á Akureyri þegar hún spurði Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, út í fjármögnun Landhelgisgæslunnar. Kristrún spurði hvort efling sjúkraflutninga með þyrlum gæslunnar og áætlanir um fjölgun áhafna gengi upp miðað við forsendur fjárlagafrumvarps næsta árs, þar sem krafist er 2% hagræðingar hjá gæslunni. Kristrún rifjaði meðal annars upp að síðasta vetur hefði þáverandi dómsmálaráðherra lagt til að selja flugvélina TF-SIF.
Guðrún svaraði að hallarekstur gæslunnar fyrir árin 2022 og 2023 stefndi í 600 milljónir. Þess vegna hefði hún lagt til við fjárlaganefndina að í ljósi hlutverks hennar við björgun og löggæslu yrði Landhelgisgæslan undanþegin aðhaldskröfunni.
Kristrún spurði Guðrúnu áfram hvar fjármagnið yrði fengið til að tryggja starfsemi gæslunnar. Guðrún nefndi hugmyndir um skattlagningu skemmtiferðaskipa þar sem gæslan sinnti verkefnum í kringum þau.