Skip to main content

Vilja endurskrá flugbrautina á Breiðdalsvík aftur sem formlegan flugvöll

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. jún 2025 11:22Uppfært 16. jún 2025 10:33

Tilefnin eru sannarlega fyrir hendi að flugbrautin á Breiðdalsvík, sem afskráð var sem formlegur flugvöllur árið 2017, verði aftur skráður sem slíkur að mati tveggja einstaklinga sem hafa sent bæjarráði Fjarðabyggðar erindi vegna þessa. 

Það var fyrir tilstuðlan Isavia árið 2017 að flugbraut Breiðdælinga var afskráður sem opinber flugbraut eða lendingarstaður en það ár fækkaði stofnunin mikið þeim flugvöllum í landinu sem hún hafði umsjón með.

Flugbrautin í Breiðdalnum er um þúsund metra löng og þrjátíu metra breið og sögð í ágætu standi  þrátt fyrir allt enda slétt og völtuð reglulega þó dottið hafi út af formlegum skrám fyrir átta árum síðan.

Það eru félagarnir Friðrik Árnason og Elís Pétur Elísson sem nýverið fóru þess á leit við Fjarðabyggð að óska eftir að flugbrautin fái aftur skráningu sem flugbraut eða lendingarbraut. Benda þeir meðal annars á í bréfi sínu til bæjarstjórnar að þar sem völlurinn hafi alfarið verið byggður á uppfyllingum á sínum tíma hafi verið um dýra framkvæmd að ræða og mikilvægt sé að verja þá fjárfestingu svo hún verði ekki aflögð með öllu.

„Ástæður þess að við óskum eftir því að lögð verði áhersla á að skrá flugbrautina aftur sem flugvöll hjá Isavia eru nokkrar. Meðal þeirra má nefna að til þess að hún geti áfram þjónað ákveðnu öryggishlutverki varðandi sjúkraflug er hentugra fyrir margra hluta sakir, svo sem vegna trygginga að völlurinn sé enn á skrá hjá Isavia. Einnig getur völlurinn þjónað tilgangi í uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu í framtíðinni. Ef ófært er í Egilsstaði er væri mikið öryggi, fyrir lítinn tilkostnað, að hafa þann möguleika að lenda á brautinni, sérstaklega fyrir sjúkraflug.“

Fullyrða bréfritarar að kostnaður við að fá formlega skráningu á nýjan leik sé ekki mikill enda enn í gildi afnotasamningur milli landeigenda og Isavia. Fyrir sitt leyti samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að taka málið upp við Isavia. Mynd Fjarðabyggð