Vilja fá samvinnuhús á Seyðisfjörð
Skrifstofuhúsnæði fyrir ríkisstofnanir og fyrirtæki, í anda samvinnuhússins Múlans í Neskaupstað, er meðal þeirra hugmynda sem starfshópur um atvinnustarfsemi á Seyðisfirði leggur til.Starfshópurinn var skipaður í september í fyrra eftir að Síldarvinnslan tilkynnti um lokun bolfiskvinnslu sinnar á staðnum. Í honum sátu fulltrúar frá fyrirtækinu, Austurbrú og Múlaþingi. Lokatillögur hópsins voru lagðar fyrir nefndir Múlaþings í apríl.
Í kjölfar lokunarinnar lýsti Síldarvinnslan sig tilbúna til að taka þátt í atvinnuþróun á Seyðisfirði til að milda höggið að lokuninni. Ein af forsendum vinnunnar er að fyrirtækið leggi fram frystihúsið.
Tillögur hópsins eru í þremur liðum. Í fyrsta lagi er það nýting frystihússins með að skipta því upp í iðnaðarbil. Starfshópurinn auglýsti eftir tillögum og meðal þess sem er nefnt í upptalningu hans eru aðstaða fyrir litla fiskvinnslu, málningarframleiðslu, matvælavinnslu, þvottahús og verkstæði.
Síldarvinnslan mun vinna þessa hugmynd áfram með að fá fagaðila til að meta hvaða breytingar þurfi að gera á húsnæðinu og hvað þær kosta. Húsnæðið er lagt til vinnunnar með fyrirvara um mat Veðurstofunnar á ofanflóðahættu. Hluti þess er í dag á hættusvæði C en það er að mestu á hættusvæði B. Mögulegt er talið að byggja varnir þannig það verði allt á hættusvæði B.
Í öðru lagi er tillaga um að byggja upp á Ferjuleiru húsnæði í anda Múlans í Neskaupstað, þar sem ríkisstofnanir og minni fyrirtæki eða einstaklingar, til dæmis í fjarvinnu, geta leigt aðstöðu. Sveitarfélagið ætlar að óska eftir viðræðum við Ríkiseignir um leigusamning til 20 ára sem myndi tryggja kjölfestu í uppbyggingunni.
Þriðja tillagan gengur út á byggingu hótels á Seyðisfirði til að styðja við ferðaþjónustuna. Vinna er þegar komin af stað undir forustu Síldarvinnslunnar sem vinnur að fýsileikakönnun.
Í niðurlagi samantektarinnar segir starfshópurinn að hugmyndirnar veki trú á að hægt sé að skapa fjölda nýrra heilsársstarfa á Seyðisfirði. Mikilvægt sé þó að hefjast sem fyrst handa við gerð Fjarðarheiðarganga því það myndi senda skilaboð um að fjárfesting í atvinnulífi Seyðisfjarðar væri vænlegt til framtíðar.