Vilja fara í Suðurfjarðaveg á þessu kjörtímabili
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. mar 2022 15:43 • Uppfært 28. mar 2022 15:43
Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hafa lagt fram tillögu um að undirbúningi við Suðurfjarðaveg verði flýtt þannig að framkvæmdir verði boðnar út á yfirstandandi kjörtímabili.
Þingmennirnir Njáll Trausti Friðbertsson og Berglind Ósk Guðmundsdóttir lögðu fram tillögu í síðustu viku að flýta framkvæmdum þannig að hönnun og útboðs vegarins milli Reyðarfjarðar og Breiðdalsvík verði á þessu kjörtímabili.
Í núverandi samgönguáætlun, sem samþykkt var árið 2020, ert ekki gert ráð fyrir fjármagni í Suðurfjarðaveg fyrr en á árunum 2030-2034, eða þriðja tímabili áætlunarinnar. Eru þá áætlaðir 4,8 milljarðar.
Í greinargerð með tillögunni er bent á vaxandi umferð á veginum, bæði vegna öflugs atvinnulífs en líka tengingu byggða innan Fjarðabyggðar en einnig vikið að því að þar hafi orðið alvarleg slys og vegurinn fengið slæma einkunn í alþjóðlegum öryggisúttektum.
Sérstaklega er talað um þrjár einbreiðar býr á tæplega 34 km langri leiðinni, en brúin yfir Sléttuá í Reyðarfirði er umferðarþyngsta einbreiða brú Austurlands. Þá sé kaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar hættulegur með mörgum blindhæðum og beygjum, auk þess sem þar sé farsímasamband takmarkað.