Vilja fimm flug á viku frá Evrópu til Egilsstaða eða Akureyrar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. feb 2022 11:06 • Uppfært 01. feb 2022 11:11
Framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia segist vonast til að í framtíðinni verði flogið fjórum eða fimm sinnum í viku milli Evrópu og flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum. Isavia vinnur nú að kynningu á völlunum fyrir flugfélögum.
Þetta kemur fram í viðtali við Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra flugvallasviðs Isavia á flugvefnum Routes. Það fyrirtæki stendur einnig fyrir fjölda alþjóðlegra flugstefna, en fulltrúar Isavia sóttu tvær þeirra á síðasta ári til að kynna flugvellina tvo.
Sigrún Björk segir Isavia vera að leggja af stað í þriggja ára verkefni til að markaðssetja vellina. Fyrsta skrefið í því sé að hafa samband við flugfélög, meðal annars með að sækja kaupstefnurnar.
„Við erum að kynna möguleikana og bjóða flugfélögum aðgengi að öðrum hlutum Íslands. Reyndar erum við að bjóða aðgengi að öllum norðurslóðum. Okkur þykja þessi svæði Íslands mjög áhugaverðir áfangastaðir en þau eru aðeins utan ásetnustu svæðanna á Suðurlandi. Með þeim miklu breytingum sem nú eru að verða á flugiðnaðinum teljum við þessi landsvæði kannski eiga möguleika. Þeir sem fljúga beint spara sér mikinn tíma,“ er haft eftir henni.
Hún bendir á að ýmislegt sé í boði fyrir flugfélögin. Í fyrsta lagi vilji farþegar eftir Covid-farldurinn frekar fljúga beint á áfangastað frekar en þurfa að taka tengiflug. Í öðru lagi veiti íslenska ríkið styrki úr flugþróunarsjóði auk þess sem Isavia bjóða afslætti af farþega- og lendingagjöldum. Þá sýni mikil umferð um Keflavík mikinn áhuga á landinu auk þess sem kannanir hafi sýnt að 80-90% þeirra sem sæki Ísland heim vilji koma aftur.
„Hugmyndin er að um þessa velli verði 4-5 flug á viku, annað hvort frá meginlandi Evrópu eða Bretlandi. Þýskaland og Bretland eru þeir markaðir sem reynst hafa best í Keflavík,“ segir Sigrún og bætir við að Transavia hafi flogið milli Hollands og Akureyrar bæði vetur og sumar.
Hún vonast til að strax í sumar sjáist árangur af markaðsstarfi Isavia en þó meiri síðar. „Ég vil helst sjá árangur í sumar. Flest flugfélög eru þó að skipuleggja veturinn 2022/23 eða sumarið 2023. Þá verður 1.100 fermetra viðbygging við flugstöðina á Akureyri tilbúin. Það myndi gleðja mig mjög að sjá vísbendingar um það sem framundan er á næstu misserum á næstu 7-8 mánuðum.“