Skip to main content

Vilja fjólubláa bekki í byggðum Fjarðabyggðar til að vekja athygli á heilabilun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. jún 2025 15:32Uppfært 03. jún 2025 15:38

Það átta sig kannski ekki allir á að í allmörgum byggðalögum landsins eru almenningsbekkir margir litaðir fjólubláum lit en það er hluti af átaki til að vekja athygli á og stuðla að umræðu um heilabilun fólks í samfélaginu. Vart hefur orðið fordóma í garð þeirra sem glíma við slíkt.

Egilsstaðir og Eskifjörður eru einu þéttbýliskjarnar Austurlands þar sem almenningsbekkir hafa verið málaðir fjólubláir en slíkt hafa líka gert tæplega tuttugu önnur sveitarfélög landsins með það að markmiði að minna á að heilabilun er grafalvarlegt heilsufarsvandamál sem taka ber alvarlega.

Undir það tekur öldungaráð Fjarðabyggðar sem bókaði nýverið ósk sína um að sveitarfélagið litaði alla almenningsbekki í öllum bæjarkjörnum í þeim fjólubláa lit sem standa á sem áminning um þann illvíga sjúkdóm. Ólafur Helgi Gunnarsson, formaður öldungaráðsins, segir brýnt að auka umtal og umfjöllun enda séu sífellt fleiri og sífellt yngri einstaklingar að greinast með slíkt.

„Þetta er auðvitað ekki einskorðað við eldra fólk heldur eru því miður yngri og yngri einstaklingar að greinast með einhvers konar heilabilun. Fjólubláir bekkir með einhverjum merkingum eiga að vekja athygli á þessum vanda og það væri gaman ef sveitarfélagið tæki skref í þessu eins og mörg önnur sveitarfélög hafa gert. Það þarf að vekja athygli á þessum alvarlega vanda ekkert síður hér en annars staðar.“

Ólafur segir Fjarðabyggð ekki sér vitandi hafa svarað neinu hvað erindið varðar að svo stöddu en segir ekki mikinn kostnað þessu samfara og vonast til að vel verði tekið í erindið þegar það verði tekið fyrir.

Þeim fer fjölgandi hérlendis sem annars staðar sem glíma við hinn grafalvarlega sjúkdóm heilabilun. Öldungaráð Fjarðabyggðar vill vekja meiri athygli á vandamálinu. Mynd Alzheimer samtökin