Vilja hefja mikla skógrækt og uppgræðslu meðfram Selá í Vopnafirði

Fyrirtækið Six Rivers Iceland, í eigu auðkýfingsins Jim Ratcliffe, hefur farið þess á leit við sveitarstjórn Vopnafjarðar að fá leyfi til uppgræðslu og skógræktar 1300 hektara svæðis meðfram Selá.

Fyrirtækið hóf reyndar að planta trjám meðfram Selá, hliðarám og lækjum árið 2017 og þar eingöngu notast við innlendar trjá- og runnategundir. Nú er hugmyndin að bæta duglega í enda þykir orðið sannað að mikill og þéttur gróður meðfram veiðiám bæti líffræðilegt ástand þeirra verulega. Hugsanlega þurfi að leita út fyrir landsteina að öðrum heppilegum tegundum á tiltekum stöðum.

Fyrirtækið hyggst jafnframt setja af stað sérstaka rannsókn á því með hvaða hætti sé best að endurheimta gróður eða vistkerfi á svæðum þar sem mikil eða alger eyðing gróðurs hefur orðið. Þar hefur Six Rivers fengið í lið með sér Skógræktina, Landgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Í erindi sem Hrafnkatla Eiríksdóttir, verkefnisstjóri skógræktarverkefnis fyrirtækisins, ritar til Vopnafjarðarhrepps segir hún mikinn hag í slíku sökum þess að flestar rannsóknir á uppgræðsluaðferðum hér á landi fari fram á suður- og vesturhluta landsins þar sem landgerð og veðurfar er töluvert ólíkt því sem gerist á norðausturhluta landsins. Sérfræðiálit varðandi aðgerðirnar og áhrif þeirra verður unnið af Lárusi Heiðarssyni, sérfræðingi hjá Skógræktinni, en hann mun meta núverandi stöðu svæðisins með tilliti til kolefnis sem og líklega árangur af aðgerðum.

Ósk Six Rivers var tekin fyrir á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Vopnafjarðar fyrr í vikunni og þar ákveðið að leita álits Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar áður en lengra verði haldið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.