Vilja kanna grundvöll áætlunarferða milli Djúpavogs og Egilsstaða
Fjöldi ungmenna frá Djúpavogi stunda nám við Menntaskólann á Egilsstöðum (ME) eða Verkmenntaskólann í Neskaupstað (VA) en allt verður það fólk að treysta á einkabíla til að komast til síns heima um helgar eða yfir frídaga. Engar beinar samgöngur eru á milli en því vill heimastjórnin reyna að breyta.
Erindi þessa efnis barst heimastjórn Djúpavogs fyrir skemmstu frá foreldrum nokkurra þessa nemenda sem flestir hverjir vilja eyða helgarfríi heimavið eða eiga beinlínis ekki kost á öðru. Við þær kringumstæður þarf að skutlast eftir þeim og skutla þeim til baka því engar almenningssamgöngur eru í boði beint frá Djúpavogi. Eina færa leiðin er að skutla nemendunum til Breiðdalsvíkur þaðan sem almenningssamgöngur eru í boði um firðina en það ferðalag tekur töluverðan tíma.
Eiður Ragnarsson, fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi, segir þessa stöðu miður því ekki allir séu í aðstöðu til að aka á milli reglulega og ekki sé heldur mögulegt fyrir nemendurna í ME að dvelja á heimavist því hún lokar yfir helgar.
„Jafnvel þó hægt sé að koma fólkinu til Breiðdalsvíkur og þaðan áfram norður þá er það töluvert ferðalag á vegi sem margar hættur eru fyrir hendi og ekki síst að vetrarlagi. Við höfum því beint því erindi til bæði Fjölskylduráðs og Umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings að kanna möguleika á að bjóða beinar áætlunarferðir tvisvar í viku eða svo og kanna hvað slíkt gæti hugsanlega kostað. Það yrði góð lausn ef slíkt næðist og myndi spara mörgum mikinn tíma og peninga.“