Vilja kanna möguleikann á að endurbyggja braggann við Sláturhúsið

Meirihluti byggðaráðs Múlaþings samþykkti nýverið að kanna nánar möguleika á að endurbryggja gamlan herbragga við hlið Sláturhússins á Egilsstöðum. Einn fulltrúa meirihlutans greiddi atkvæði gegn þeirri tillögu og bókaði að réttast væri að rífa bygginguna.

Byggingin er gamall herbraggi sem Kaupfélag Héraðsbúa keypti frá Reyðarfirði í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann þjónaði lengst af hlutverki fóðurgeymslu en nýttist einnig í árdaga sem samkomusalur og voru þar sýndar bíómyndir. Undanfarin ár hefur hann ýmist verið nýttur af Sláturhúsinu sem geymsla eða til menningarstarfs.

Um það leyti sem byggingarnefnd Sláturhússins var að ljúka störfum síðsumars árið 2022 lagði hún til að bragginn yrði rifinn, annað hvort allur eða að hluta. Nefndin sagði hann illa farinn og ljótan, takmarkað hægt að nota hann og dýrt að gera hann upp svo vel væri. Þá skyggði hann á nýuppbyggt Sláturhúsið. Ef hann yrði aðeins rifinn að hluta stæði eftir yfirbyggt sviðið og þar með skapaðist útisvæði fyrir menningarstarf.

Sveitarfélaginu bárust þá tillögur að nýtingu hans til sýningarhalds, verslunar- eða veitingastarfsemi og áframhaldandi menningarstarfsemi. Í sumar var skipaður starfshópur til að meta tillögurnar og skilaði hann af sér í október.

Hefur menningarsögulegt gildi fyrir Egilsstaði


Starfshópurinn taldi ekki rétt að rífa braggann í ljósi menningarsögulegs gildis hans heldur gæti hann sómt sér vel og vitnað um sögu Egilsstaða ef hann yrði gerður upp. Hópurinn fékk meðal annars álit Minjastofnunar sem taldi prýði af að endurgera braggann í upphaflegri mynd.

Við gerð deiliskipulags fyrir miðbæinn árið 2021 var gerð húsakönnun þar sem lagt var mat á byggingar á svæðinu. Þar er bragginn talinn hafa mikið menningarsögulegt gildi vegna tengsla við verslun og samfélag á Egilsstöðum en einnig sem herminjar. Hins vegar var bent á að hann skæri sig mjög frá öðrum húsum í nágrenninu og félli illa inn í heildarmyndina.

Meirihluti starfshópsins taldi ekki rétt að fylgja frekar eftir hugmyndum um verslun, veitingar eða sýningahald. Þeim fylgdi tölvuvert meira átak í endurbyggingu auk þess sem lóðamál gætu reynst erfið. Einn fulltrúi vildi frekar fara þá leið. Meirihlutinn vildi reyna að endurbyggja braggann undir menningarstarfsemi. Í sameiginlegri bókun segir þó að ef ekki reynist fýsilegt að endurbyggja braggann skuli hann rifinn.

Meirihlutinn klofnar


Fyrir byggðaráði lá kostnaðarmat á hugmyndunum. Ódýrasta leiðin er að rífa braggann. Hún er talin kosta fjórar milljónir. Heildarendurbygging er metin á 67,4 milljónir. Millivegurinn, þær leiðir sem starfshópurinn vildi fara, fela í sér viðgerð með eða án nýs bárujárns. Kostnaður með nýju járni er talinn 27,2 milljónir en 16,3 milljónir án þess. Allar tillögur um endurbyggingu gera ráð fyrir að bragginn verði styttur um tíu metra til að gefa Sláturhúsinu meira rými.

Þrír fulltrúar byggðaráðs, einn frá Sjálfstæðisflokki, annar úr Framsóknarflokki og sá þriðji frá Austurlista, samþykktu að láta athuga frekar möguleikana á að endurbyggja braggann. Fulltrúi VG sat hjá en Ívar Karl Hafliðason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Í bókun segir hann að miðað við tíu ára framkvæmdaáætlun Múlaþings og viðhaldsþarfar annars húsnæðis í eigu sveitarfélagsins sé ekki forsvaranlegt að leggja peninga í viðgerðir á bragganum. Best sé að rífa húsið því ástand þess sé dapurt og nánast hættulegt.

Þröstur Jónsson, áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, lagði fram bókun þar sem hann lýsti bragganum sem „handónýtu húsi“ sem í upphafi verði verið reist til bráðabirgða. Nóg væri komið af „kostnaðarhítum við að gera upp vonlaust rusl.“ Bragginn væri „ruslahaugur“ og þá bæri að fjarlægja.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.