Vilja leyfa íbúðir á athafnasvæði á Reyðarfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. ágú 2025 15:44 • Uppfært 25. ágú 2025 15:44
Fjarðabyggð hefur opinberað tillögu þar sem lagt er til að heimilt verði að vera með íbúðir á svæði sem í dag er skilgreint sem iðnaðarsvæði og stendur vestan við miðbæinn á Reyðarfirði.
Um er að ræða svæði milli götunnar Búðareyrar og Nesbrautar, sem afmarkast af Búðargötu og Leiruvogi. Á þessu svæði er meðal annars starfsstöð Vegagerðarinnar sem og bensínstöð Olís.
Í skipulagstillögunni segir að vegna tengsla þessa svæðis við nálæga byggð sé nokkur áhugi á að hægt sé að nýta hluta þess fyrir íbúðarbyggð og þjónustu. Til viðbótar við íbúabyggðina er lögð áhersla á verslun og þjónustu umfram það sem er í núverandi skipulagi.
Ekki er um veruleg uppbyggingaráform sem fljótlega hefðu áhrif á íbúðaframboð, heldur verið að opna á þróun sem gæti átt sér stað til lengri tíma þar sem breytingar verða „þegar vel stæði á“ hjá þeim mörgu aðilum sem í dag hafa ítök á svæðinu, eins og segir í tillögunni. Stefnt hefur verið á að athafnasvæði Reyðarfjarðar til framtíðar sé við Hjallaleiru.
Nánar er útskýrt að reiturinn myndi smám saman umbreytast og sú starfsemi sem er þar í dag færast annað. „Mikil tækifæri“ eru sögð liggja í umbreytingu athafnasvæðisins.
Iðnaðarsvæðið í heild er merkt með gulri brotalínu. Svæðið sem breytingin nær til er með gulri línu. Mynd: Fjarðabyggð/Alta