Vilja lækka húshitunarkostnað á köldum svæðum
Fimm þingmenn úr Norðausturkjördæmi eru meðal þeirra sem nýverið lögðu fram þingsályktunartillögu um lækkun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Þessi kostnaðarliður hefur hækkað hjá heimilum á landsbyggðinni undanfarin ár og hækkaði enn frekar um seinustu áramót þegar endurgreiðslu skatts af húshitun var hætt.
Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að setja á laggirnar nefnd er móti tillögur um lækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er nú hæstur, marki stefnu um fyrirkomulag á niðurgreiðslum vegna hitunar á íbúðarhúsnæði og skoði hvernig unnt sé að stuðla að varanlegri lækkun húshitunarkostnaðar á svokölluðum „köldum svæðum“. Stefnt sé að því að þessi kostnaður verði sem næst kostnaði hjá meðaldýrum hitaveitum, eða tiltekið hlutfall af húshitunarkostnaði á orkuveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur og hjá sambærilegum hitaveitum. Nefndin verði skipuð fulltrúum þingflokka, sveitarfélaga og orkufyrirtækja og skili tillögum sínum fyrir árslok 2011.
Í greinargerð, sem fylgir ályktuninni, segir meðal annars:
„Húshitunarkostnaður hefur á undanförnum árum orðið æ þyngri þáttur í framfærslu heimila víða á landsbyggðinni. Talið er að um 36–37 þúsund manns búi á svokölluðum „köldum svæðum“, þ.e. svæðum þar sem húshitunarkostnaður er mestur.
Fram til síðustu áramóta voru í gildi lög sem kváðu á um að virðisaukaskattur vegna húshitunar væri endurgreiddur, til þess að koma í veg fyrir að þessi skattlagning lenti á heimilunum í landinu. Með lagabreytingu sem tók gildi um áramótin var horfið frá þessari endurgreiðslu.
Því miður hefur niðurgreiðslan undanfarin ár alls ekki dugað til þess að hamla á móti hækkandi orkuverði til heimilisnota.
Ýmis úrræði eru til sem stuðlað geta að lægri húshitunarkostnaði. Átak í frekari orkusparandi aðgerðum gæti skilað árangri. Þó verður að halda því til haga að íbúðareigendur á köldum svæðum hafa mjög margir þegar ráðist í slíkar aðgerðir, meðal annars af illri nauðsyn. Vandinn við slíkar aðgerðir er líka sá að þær eru jafnan kostnaðarsamar og skila íbúðareigendum ábata á mjög löngum tíma. Þarna er þó sjálfsagt að halda áfram, svo sem kostur er.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem felur í sér heimild til þess að endurgreiða virðisaukaskatt af varmadælum, sem margir telja að geti verið liður í því að lækka húshitunarkostnað. Þá má benda á að varmadælur bera nú þegar tolla og vörugjöld, sem einfalt er að fella niður varanlega eða tímabundið til þess að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar. Slíkt kallar ekki á lagaheimild, heldur breytingu á tollflokkum og reglugerðum."
Flutningsmenn þingsályktunartillögunar eru Einar K. Guðfinnsson, Kristján L. Möller, Ásbjörn Óttarsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Kristján Þór Júlíusson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Jón Gunnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þuríður Backman, Árni Johnsen, Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson.