Rjúfa félagslega einangrun með geðræktarmiðstöðvum á Egilsstöðum og Reyðarfirði
Gangi allt að óskum opna tvær svokallaðar geðræktarmiðstöðvar austanlands með haustinu en með þeim skal reynt að rjúfa félagslegra einangrun þeirra íbúa sem ekki geta eða vilja nýta sér önnur úrræði í boði í þeim málaflokki.
Um tilraunastarfsemi er hér að ræða en eins og fjallað hefur verið nokkuð ítarlega um bæði á Austurfrétt og í Austurglugganum síðustu misserin vantar töluvert upp á þjónusta vegna geðheilbrigðismála í fjórðungnum sé eins og best verði á kosið. Það á sama tíma og kannanir benda til að sífellt fleirum líði verr og verr í sálinni og þar ekki síst ungu fólki.
Verkefni þetta komst á laggirnar fyrir tilstuðlan 30 milljóna króna styrks úr Alcoa Foundation en að því standa Starfsendurhæfing Austurlands, sveitiarfélögin Múlaþing og Fjarðabyggð, Austurbrú og Heilbrigðisstofnun Austurlands.
Fyrsta skrefið í ferlinu er að greina þörfina nákvæmlega og hluti af því er að óska liðsinnis þeirra sem hugsanlega myndu nýta sér þetta nýja úrræði. Í grunninn er um að ræða að setja upp tvær miðstöðvar á Egilsstöðum og Reyðarfirði en þar innandyra skal reynt að skapa stuðningsríkt samfélag fólks sem glímir við félagslega einangrun en vantar styrk eða hjálp til að taka skrefið.
Allnokkur fjöldi fólks
Sigurlín H. Kjartansdóttir, yfirsálfræðingur Heilbrigðisstofnunar Austurlands, er mjög ánægð með að verkefnið sé komið á veg enda sé vitað að töluverður fjöldi fólks á Austurlandi hefur annaðhvort ekki tök á eða vilja til að nýta þau úrræði sem hafa verið í boði hingað til og þarf meiri aðstoð og hjálp. Segir Sigurlín líklegt að minnst 70 til 80 einstaklingar séu í þessari stöðu í dag.
„Þetta snýst um að skapa vettvang sem okkur finnst sárlega vera þörf fyrir á Austurlandi fyrir einstaklinga sem eru kannski fyrir utan atvinnumarkaði eða starfsendurhæfingarúrræði en hafa engu að síður áhuga að vinna í sér og ná fullum bata. Geðræktarmiðstöðvarnar eiga að vera samastaður fyrir þessa einstaklinga til að koma saman, njóta félagsskapar og kveikja þannig einhverja virkni hjá viðkomandi. Það lítill vafi á að í slíkum hópum er fólk gjarnan opnara og áhugasamara um að vinna í sér og leita leiða til að komast inn í lífið á ný.“
Sigurlín segir vissulega ýmsar lausnir þegar til staðar fyrir félagslega einangraða einstaklinga eins og Starfsendurhæfingu Austurlands eða Virk starfsendurhæfingarsjóð en þau úrræði séu einungis fyrir fólk sem sé beint í einhvers konar starfsendurhæfingu. Þarna úti sé fólk sem ekki hefur náð á þann stað þó vilji sé eflaust fyrir hendi og með þessu tilraunaverkefni verði leitast við að koma til meira til aðstoðar.
Þessu tengt er nú að finna á vef Austurbrúar og HSA sérstaka könnun sem fólk getur tekið þátt í og þannig haft bein áhrif á hvernig starfið innan geðræktarmiðstöðvanna mun verða þegar þær opna í haust.
Sérstök geðræktarþing hafa verið haldin í Valaskjálf undanfarin tvö ár og aðsókn á þau sýna svo ekki verður um villst að geðheilsumál skipta marga máli. Mynd AE