Skip to main content

Vilja seinka upphafi skóladagsins um 20 mínútur í Nesskóla

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. maí 2025 10:08Uppfært 22. maí 2025 10:23

Mikill áhugi er á því meðal starfsfólks Nesskóla í Neskaupstað að hnika því lítillega til hvenær skóladagurinn mun hefjast frá og með næsta hausti. Bréf þess efnis hefur borist öllum foreldrum og forráðamönnum og fundur vegna þess fer fram í næstu viku.

Um ákveðið tilraunaverkefni er að ræða að sögn skólastjórans Karenar Ragnarsdóttur og markmiðið að bæta skólastarfið allt en á sama tíma gefa nemendunum færi á að sofa eilítið lengur en hingað til hefur verið hægt. Verkefnið eitt af því sem tekið var fyrir á skólaþingi Nesskóla í síðasta mánuði og hlaut þar góðar undirtektir hjá bæði nemendum og foreldrum.

„Við erum að byrja að kynna þetta fyrir hlutaðeigandi foreldrum og forráðamönnum og allir fengu þau bréf frá okkur í fyrradag og svo verður fundur í næstu viku til að ræða þetta nánar. Það sem við viljum gera er að seinka skóladeginum um 20 mínútur frá næsta hausti. Við höfum alltaf byrjað daginn klukkan 8.10 á morgnana en langar að prófa að seinka byrjuninni um 20 mínútur. Fjölmargar rannsóknir sýna að nemendur margir sofa ekki nóg og þetta er svona tilraun til að bæta þar úr með einhverjum hætti. Skóladagurinn hæfist þá 8.30 en opnun skólans sjálfs breytist ekkert. Skólinn mun áfram opna á sama tíma klukkan 7.50 og okkur langar til að bjóða þeim sem þá koma upp á hafragraut milli 8 og 8.20 og svo tekur skóladagurinn við. Hann yrði lítillega lengur fram á daginn fyrir vikið en þó ekki með þeim hætti að það hafi áhrif á íþróttastarf eða annað og jafnvel styttir bið fyrir yngri börnin í frístund fyrir íþróttir.“

Fjölskyldunefnd Fjarðabyggðar ræddi erindi Nesskóla vegna þessa fyrir skömmu og engar athugasemdir gerðar sérstakar nema að áhersla yrði lögð á að kynna breytinguna meðal allra foreldra áður en lokaákvörðun yrði tekin.

Það segir skólastjórinn einmitt hugmyndina með upplýsingabréfinu og fundi í næstu viku.

„Þar verða vonandi líflegar umræður um þetta og auðvitað kunna skoðanir að vera misjafnar á þessu. En þess vegna er allt samtal gott og ég óskaði endilega eftir ábendingum ef eitthvað væri í bréfinu. En hér er ekki verið að stytta skóladaginn heldur hnika aðeins til hvenær kennslan hefst um 20 mínútur.“