Vilja styðja við Breiðdælinga með 400 þorskígildistonnum
Byggðastofnun hefur óskað eftir samstarfsaðilum til nýtingar aflaheimilda í Breiðdalsvík en þar eru í boði allt að 400 þorskígildistonn fyrir heppilega aðila.
Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða hefur Byggðastofnun yfir að ráða tilteknum aflaheimildum sem stofnuninni er heimilt að ráðstafa til „byggðalaga í alvarlegum eða bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.“ Slíkir samningar geta verið til allt að sex ára í senn og skuli jafnan fara til byggðalaga sem háð eru sjávarútvegi, eru fámenn og utan fjölbreyttra vinnusóknarsvæða.
Nú hefur verið óskað eftir samstarfsaðilum á Breiðdalsvík til að nýta allt að 400 þorskígildistonn á þessu og næsta ári og þurfa áhugasamir að leggja inn umsókn fyrir 15. september. Byggðastofnun gerir þó töluverðar kröfur til umsækjenda sem til greina koma. Þar á meðal hversu trúverðug áform um útgerð og vinnslu eru, hversu mörg heilsársstörf skapast og traustri rekstrarsögu þeirra sem um sækja.