Vilja tryggja að laxeldi á Íslandi verði ekki í eigu örfárra erlendra aðila
„Það hafa þegar borist umsagnir við þingsályktunina en ekkert enn komið aðilum á Austurlandi mér vitandi,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í norðausturkjördæmi. Hún er ein sjö þingmanna sem vilja breytingar á lögum um fiskeldi til að sporna við að mikilli samþjöppun í eignarhaldi og að erlendir aðilar ráði þar ríkjum.
Af því tilefni lögðu sjömenningarnir, sem allir koma úr Framsóknarflokki, fram þingsályktunartillögu í byrjun síðasta mánaðar þar sem Alþingi er hvatt til að breyta þessum lögum. Óskir um umsagnir um ályktunina hafa borist sveitarstjórnum hér austanlands en erlendir aðilar eiga meira og minna allt fiskeldi austanlands og hið sama er uppi á teningnum að stórum hluta á Vestfjörðum.
Þingsályktunartillagan gengur út á að tryggt verði með lagasetningu að laxeldi á Íslandi verði ekki í eigu örfárra aðila, að fjölbreytni ríki í greininni og að eignarhaldið verði staðbundið. Þá skulu lög jafnframt koma því til leiðar að atvinnulíf á viðkomandi svæðum blómstri og dafni með því að tekjur af fiskeldi skili sér til nærliggjandi samfélaga.
Líneik segir aðspurð að undirtektir við tillögunni hafi að mestu verið jákvæðar en vonir standa til að málið komist á dagskrá þingsins síðar á þessu ári og fái þar framgang.
„Við erum með lög um fiskeldi í Færeyjum til hliðsjónar en þar er lagaákvæði sem takmarkar eignarhluta þeirra sem ekki eru búsettir í Færeyjum. Enginn erlendur lögaðili má þar ráða meiru meira en 20 prósent af atkvæðisbærum hlutum í fiskeldisfyrirtækjum. Aukin lagasetning vegna fiskeldis er til skoðunar í Noregi líka.“
Aðspurð hvort slík lagabreyting sé of seint komin fram telur Líneik ekki svo vera en viðurkennir að ef lög þessa efnis verða að veruleika verða þau aldrei afturvirk. Þau breyta því ekki orðnum hlut.
Mynd: Fiskeldi er nú stundað í töluverðum mæli í velflestum fjörðum Austurlands. Stöðvarfjörður að bætast við þá flóru og mögulega Seyðisfjörður einnig.