Skip to main content

Vilja tvo fasta ruðningsdaga yfir Axarveg að vetrarlagi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. mar 2025 13:45Uppfært 17. mar 2025 09:49

Sveitarstjórn Múlaþings tók vel þeirri áskorun heimastjórnar Djúpavogs að þrýsta á um að færa mokstur yfir Axarveg úr svokallaðri G-reglu yfir í F-reglu. Var samþykkt á fundi sveitarstjórnar í vikunni að senda beiðni þessa efnis til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og á Vegagerðina sjálfa.

Eins og staðan hefur verið fer mokstur á Axarvegi eftir G-reglu Vegagerðarinnar sem þýðir að stofnunin mokar tvívegis í viku hverri en eingöngu snemma á haustin og seint að vori og þá einungis ef snjólétt er á veginum. Nánar tiltekið til 1. nóvember og frá 20. mars. Að auki hefur Vegagerðin heimild til að moka einu sinni vikulega fram til 5. janúar en með þeim fyrirvara að kostnaður hverju sinni sé ekki meiri en þrefaldur umfram kostnaðinn þegar snjólétt er á veginum.

F-reglan á hinn bóginn þýðir að vegurinn er þjónustaður tvisvar sinnum vikulega að vetrarlagi burtséð frá snjóþyngslum eða kostnaði hverju sinni. Hefur í vetur borið á töluverðri gagnrýni á Vegagerðina fyrir að halda Axarvegi ekki opnum með tilliti til snjólétts vetrar.

Sveitarstjórn Múlaþings hvetur ráðherra ennfremur til að taka Axarveg af lista yfir svokölluð PPP-verkefni sem var stefna fyrri ríkisstjórnar um margra ára skeið. Þá koma einkaðilar að framkvæmdinni og fá á móti leyfi til veggjalda um áratugaskeið þegar framkvæmdum lýkur eins og raunin var lengi með Hvalfjarðargöng. Vænlegra sé að mati sveitarstjórnar að ríkið byggi sjálft upp nýjan Axarveg með beinum framlögum.