Skip to main content

Vilja úrbætur á flugi til og frá Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. mar 2022 14:41Uppfært 29. mar 2022 18:08

„Það hefur verið óvenju erfitt að fá flug frá Egilsstöðum hér upp á síðkastið og með tilliti til að þetta eru almenningssamgöngur fyrir okkur hér töldum við fulla ástæðu til að láta kanna hvort ekki megi gera betur,“ segir Vilhjálmur Jónsson, formaður heimastjórnar Fljótsdalshéraðs.

Heimastjórnin sammældist um það á síðasta fundi sínum að beina því til sveitarstjórnar Múlaþings að fara þess á leit við Icelandair að fyrirtækið fjölgi flugferðum sínum en töluvert hefur verið uppselt í vélar flugfélagsins að undanförnu og færri komist en vilja. Austurfrétt hefur fregnað að nokkur fjöldi fólks hefur undanfarið ekið alla leið til Akureyrar til að fá flug þaðan á suðvesturhornið.

„Þetta er afar mikilvægur samgöngumáti fyrir alla Austfirðinga,“ ítrekar Vilhjálmur og bendir á að allnokkur fjöldi fólks þurfi suður reglulega vegna heilbrigðisþjónustu sem ekki fæst með öðru móti.

„Það verður orðið sífellt erfiðara að fá lækna og sérfræðinga hingað austur og af því leiðir að fólk þarf suður í þess konar og aðra þjónustu. Fleira kemur hér til því bæði ferðaþjónustan austanlands auk margra fyrirtækja reiða sig á öruggar og tíðar samgöngur. Sætaframboð og flugtíðni þarf að auka.“