Viljayfirlýsing um stækkum verknámshúss VA

Á miðvikudag var undirrituð viljayfirlýsing um forathugun milli Mennta- og barnamálaráðuneytisins og Verkmenntaskóla Austurlands um forathugun á stækkun verknámshúss skólans. Skólameistari segir afar þröngt vera orðið um starfsemina.

Yfirlýsingin felur í sér að ráðuneytið verður VA innan handar við forathugun á stækkun núverandi verknámshúss en athugunin er hluti af nauðsynlegum undirbúningi byggingar. „Nú getum við sagt að undirbúningurinn, með þarfagreiningu og slíku, sé formlega kominn af stað,“ segir Hafliði Hinriksson, skólameistari.

Verknámshúsið var tekið í notkun árið 1996 en það byggði á eldra íþróttahúsi Neskaupstaðar. Tíu árum síðar var byggt við það. S

„Þetta þótti fínt á sínum tíma en frá 2006 hefur námið aukist. Við útskrifum rafvirkja, vélvirkja og húsasmiði á hverju ári. Síðan bættist þarna inn FabLab smiðjan. Tréiðnaðardeildin er staðsett á annarri hæð sem gerir aðföng og að koma hlutum út erfiðari. Hún hafa verið byggð þarna á annarri hæð og hífð út.

Þörfin er orðin mikil því skólinn hefur sprengt af sér húsið sem hann hefur. Með þessari yfirlýsingu er ráðuneytið að viðurkenna að búa þurfi til góða aðstöðu,“ segir Hafliði.

Stærð og umfang nýja hússins er eitt af því sem skoðað verður á næstunni en Hafliði segir horft til þess að byggja í nágrenni skólans. „Við höfum átt óformlegar viðræður við sveitarfélagið um staðsetninguna. Við sjáum fyrir okkur hús þar sem tréiðnaðardeildin verður á jarðhæð og síðan bæti aðrar deildir við sig af því plássi sem losnar þegar hún fer út.“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Hafliði Hinriksson, skólameistari VA og Jón Björn Hákonarson, formaður skólanefndar VA, skrifuðu undir yfirlýsinguna í verknámshúsi VA á miðvikudag. Mynd: VA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.