Vill afslátt á umhverfismati vegna varnarmannvirkja í Seyðisfirði
Sveitarstjóri Múlaþings, Björn Ingimarsson, telur aldeilis fráleitt að bygging varnarmannvirkja í Seyðisfirði muni tefjast um eitt til tvö ár meðan að framkvæmt er umhverfismat vegna þess.
Björn hefur áður lýst yfir óánægju með að varnarmannvirki þurfi í sérstakt umhverfismat enda liggi eðli máls samkvæmt á að koma slíkum varnarvirkjum fyrir eins fljótt og auðið er eins og atburðir síðustu vikna hafa sýnt fram á.
Hefur Björn þrýst á þartilgerð yfirvöld að Múlaþing fái einhvers konar afslátt af þessum kröfum eða að umhverfismatskröfum verði beinlínis sleppt í þessum tilfellum.
„Ég er ekkert á móti regluverki eða skipulagslögum en ég verð alveg að viðurkenni það að ég á svolítið erfitt með að sætta mig við þetta. Við erum þarna að vinna í því að verja byggð til varanlegrar framtíðar. Og að við skulum þurfa að fara í eitthvað sérstakt umhverfismat til að fara í framkvæmdum og koma upp varnarmannvirkjum að það sé ásættanlegt eða heimilt. Ég á bara erfitt með að sætta mig við þetta þannig að hvað sem fólki kann að finnast þá mun ég halda áfram að þrýsta á um það að það verði veittur einhver afsláttur af þessu eða að okkur verði sleppt við þennan hlut til að fara í þetta sem fyrst.“
Lét Björn hafa eftir sér á síðasta sveitarstjórnarfundi Múlaþings í síðustu viku að afar mikilvægt væri að ríkið ráðstafaði nægilegu fjármagni til ofanflóðasjóðs til að byggja þær varnir sem nauðsyn þykir á.
„Það er gríðarlega mikilvægt að nægilegu fjármagni verði ráðstafað af hálfu ríkisins til ofanflóðasjóðs þannig að hægt verði að ljúka framkvæmdum við varnir vegna mögulegra aur- og snjóflóða á Seyðisfirði. Framkvæmdir við snjóflóðavarnir norðanmegin í firðinum eru í gangi og það liggur fyrir lokahönnun vegna mögulegra aurflóða sunnanmegin og gríðarlega mikilvægt að framkvæmdir þar hefjist líka sem fyrst.“
Ekki verður hægt að hefjast byggingu flóðavarnargarða sunnamegin Seyðisfjarðar fyrr en umhverfismat hefur verið framkvæmt og lagt fyrir. Það telur sveitarstjóri Múlaþings afleitt. Mynd Austurland.is