Vill burtu með öll verndarsvæði í byggð

„Ég get tekið sem dæmi um húseiganda á Djúpavogi sem langaði að byggja sólpall við húsið sitt en það reyndist snarbannað þar sem húsið var á verndarsvæði. Þetta er forræðishyggja á hæsta stigi,“ segir Oddný Björk Daníelsdóttir, sem situr í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings.

Oddný lagði fram bókun á síðasta fundi nefndarinnar þar sem hún hvetur komandi sveitarstjórn að endurskoða frá grunni svokölluð verndarsvæði í byggð í sveitarfélaginu en krafa er um slíka endurskoðun eftir hverjar kosningar til sveitarstjórna.

Verndarsvæði í byggð er ætlað að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi en byggingum sem falla innan slíks svæðis má lítt breyta eða rífa án samþykkis sveitarstjórna. Djúpivogur var fyrst sveitarfélaga til að staðfesta verndarsvæði í byggð árið 2017 en tillaga er fram komin um slíkt verndarsvæði á Egilsstöðum og verið að vinna að slíkri tillögu fyrir Seyðisfjörð.

Oddný segir hlutverk sveitarstjórna sé að auðvelda íbúum sínum lífið en hvers kyn boð og bönn falli ekki undir það. Þá sé eðlilegt að kröfur um verndarsvæði komi frá íbúum sjálfum en ekki yfirvaldinu.

„Ég get staðfest að það er töluverð óánægja á Egilsstöðum með fyrirhugaða verndarstefnu þar og allnokkrar neikvæðar umsagnir komið á okkar borð í ráðinu sem verið er að fara yfir en næsta sveitarstjórn þarf að ákveða hver næstu skref verða og ég vona að sú hætti þessum verkefnum og skoði ekki slíkar hugmyndir nema krafa sé um það frá íbúunum sjálfum því þeim er alveg treystandi til að fara vel með sitt eigið umhverfi.“

Fyrirhugað verndarsvæði í gömlu byggð Egilsstaða hefur verið í ferli síðan í vetur en svæðið sem um ræðir sést á kortinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.