Vill íbúakosningu um leiðarval vegar frá Fjarðarheiðargöngum
Oddviti Miðflokksins í sveitarstjórn Múlaþings hefur farið þess á leit að efnt verði til íbúakosningar um leiðarval frá Fjarðarheiðargöngum og inn á Egilsstaði.
Þessa óskaði Þröstur Jónsson á síðasta fundi byggðaráðs Múlaþings og var þar samþykkt í kjölfarið að vísa erindinu til sveitarstjórnar til afgreiðslu á þeirra næsta fundi. Miðflokksmenn hafa um tíma harðlega gagnrýnt þá tillögu Vegagerðarinnar að svokölluð suðurleið innfyrir bæinn væri besti kosturinn sem meirihluti sveitarstjórnar Múlaþings samþykkti svo í kjölfarið.
Aðspurður segist Þröstur bjartsýnn á að sveitarstjórnarfólk taki vel í óskina enda þar velmeinandi fólk í einu og öllu.
„Ég veit sem er að það eru margir að ræða þetta enn í dag sín á milli í bæjarfélaginu og þetta skiptir fólk máli enda liggur þarna ýmislegt undir. Langmest rask verður með suðurleiðinni og takmarkar mjög byggingarland í framtíðinni svo fátt sé nefnt. Það er eðlilegt og lýðræðislegt að leita álits bæjarbúa á þessu máli og ég leyfi mér til dæmis að benda á að samkvæmt könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Múlaþing í byrjun ársins var nokkuð stór meirihluti hlynntari norðurleiðinni en að fara suðurfyrir. Hugsanlega gæti íbúakosning haft einhverjar breytingar á áætlunum í för með sér.“
Næsti sveitarstjórnarfundur hjá Múlaþingi verður haldinn þann 18. október næstkomandi.