Vindmælirinn fauk út í veður og vind
Vindmælir ísfisktogarans Gullvers fauk af skipinu í óveðrinu sem geysaði í nótt sem leið en skipið var þá komið langleiðina inn á Seyðisfjörð til löndunar.
Rætt er við skipstjórann, Þórhall Jónsson, á vef Síldarvinnslunnar en skipið hefur verið á veiðum síðan á fimmtudagskvöld og nánast allan þann tíma í leiðindaveðri.
„Við fórum út á fimmtudagskvöld og vorum að veiðum á Breiðdalsgrunni, á Fætinum og á Gerpistotunni. Það er varla nokkurn tímann friður hvað veður áhrærir og þannig hefur það verið frá áramótum. Á sunnudaginn var til dæmis varla veiðiveður.“
Þórhallur segir að haldið hafi verið í land sökum óveðursins í aðsigi en það hafi komið aðeins of snemma og raunar hafi reynst þrautin þyngri að landa aflanum þegar bryggju var náð.
„Það var allt í lagi að sigla að landi en þegar við vorum komnir inn á Seyðisfjörð gerði snarvitlaust veður. Vindmælirinn hjá okkur á skipinu sýndi 40 metra og síðan fauk hann líklega af skipinu en við erum að fara að kanna það.“