Skip to main content

Vindmyllur við Lagarfossvirkjun munu sjást í allt að 45 kílómetra fjarlægð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. apr 2023 10:13Uppfært 17. apr 2023 10:15

Þær tvær vindmyllur sem Orkusalan áformar að reisa við Lagarfossvirkjun munu, í hæstu spaðastöðu, sjást í allt að 45 kílómetra fjarlægð eða alla leið upp í Skriðdal.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í matsáætlun þeirri sem Orkusalan hefur nú sent Skipulagsstofnun vegna fyrirhugsað umhverfismats vegna framkvæmdanna.

Á meðfylgjandi korti, sem unnið er af verkfræðistofunni Eflu fyrir Orkusöluna, gefur að líta sjónræn áhrif 160 metra hárra vindmylla sem eru sú hæð sem er fyrsti kostur af hálfu framkvæmdaraðilans. Dökki liturinn sýnir hvar myllurnar verða fræðilega sýnilegar þegar spaðar myllanna eru í sinni hæstu stöðu. Hægt verður að vitna þær langt inn í land að Skriðdal eða mest í 45 kílómetra fjarlægð frá staðsetningu við Lagarfossvirkjun.

Fram kemur þó í umsögn Eflu vegna sjónrænna áhrifa að þó myllurnar séu fræðilega sjáanlegar á svo stóru svæði þá er fjarlægðin slík að myllurnar séu vart greinarlegar. Fræðilegur sýnileiki tekur aðeins tillit til sýnileika miðað við hæsta punkt en ekki hlutfallslegan sýnileika, það er að segja hversu mikið sýnilegt fyrirbærið er frá hverjum stað.

Þetta sýnileikakort sýnir þó að vindmyllurnar verða sýnilegar á stærstum hluta þess hluta mið-Héraðs sem er nógu nálægt til að geta séð þær. Þetta eru einkum svæði í austanverðri Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghá. Fyrir utan íbúa á þessu svæði þá eru nokkrir ferðamannastaðir í nágrenninu þaðan sem vindmyllurnar sjást að mismiklu leyti, t.d. Galtastaðir Fram, Kirkjubær, Húsey og svo auðvitað frá Lagarfossi sjálfum. Vindmyllurnar eru ekki sýnilegar frá Kjarvalshvammi, en Kjarvalshvammur er undir háum klapparás og í algjöru hvarfi.