Vinna að samfélagsreglum vegna skemmtiferðaskipa á Djúpavogi
Bæjaryfirvöld og ferðaþjónustuaðilar á Djúpavogi eru nú í sameiningu að vinna að innleiðingu sérstakarar samfélagsstefnu vegna komu skemmtiferðaskipa í framtíðinni.
Ein þeirra sem reynslu hefur af slíku verkefni er Aðalheiður Borgþórsdóttir, markaðsstjóri Seyðisfjarðarhafnar, en það var fyrsta höfn landsins sem innleiddi slíka samfélagsstefnu. Stefnan þar og á Djúpavogi í framtíðinni tekur mið af stefnu norsku regnhlífarsamtakanna Association of Arctic Expedition Cruise Operators eða AECO eins og það er skammstafað.
Aðalheiður segir að slík stefna miðist að því að taka móti stærri skemmtiferðaskipum í fullri sátt við bæði íbúa og ekki síður náttúru á hverjum stað fyrir sig en hin síðari ár hefur nokkuð borið á mótmælum íbúa gagnvart skemmtiferðaskipum þar sem ekki þykir mikið tillit tekið af hálfu skipaeigenda. Feneyjar gott dæmi um það.
Meðal þess sem fram kemur í samfélagsstefnu Seyðisfjarðarhafnar er að brýna fyrir gestum að virða friðhelgi íbúa og sem dæmi um það að taka ekki myndir af börnum að leik án leyfis forráðamanna. Brýnt er fyrir gestum að skilja ekki neitt eftir sig á þeim stöðum sem farið er um og að fara skuli sérstaklega varlega á hvers kyns vernduðum svæðum og við menningarminjar.
Mynd: eitt skemmtiferðaskipa sem heimsótt hafa Djúpavog síðustu árin en þeim fjölgar hægt og bítandi. Mynd Djúpivogur.is