Vinna að því að hækka þyngdarmörk sjúklinga í sjúkraflugi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. feb 2024 15:14 • Uppfært 05. feb 2024 15:14
Innan heilbrigðisráðuneytisins er unnið að því að hækka leyfilega þyngd einstaklinga í sjúkraflugi. Þetta eru viðbrögð við því að sjúklingi frá Vopnafirði var neitað um flutning í október þar sem hann var þyngri en búnaður sjúkraflugvélanna gerði ráð fyrir.
Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Berglindar Hörpu Svavarsdóttur, varaþingsmanns Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Berglind Harpa spurði Willum Þór fyrir áramót hvort ráðstafanir yrðu gerðar til að tryggja að allir íbúar, óháð þyngd, kæmust í sjúkraflug. Svarið var lagt fram á þingi í síðustu viku.
Þar segir að sem stendur séu sjúkrabörur í flugvélum vottaðar fyrir einstaklinga undir 135 kg. Unnið sé að því að hækka þyngdarmörkin með þeim búnaði sem nú er til staðar og ekki útilokað að kannaður verði möguleiki á búnaði sem þoli meiri þyngd.
Það þurfi að meta í tengslum við alþjóðlega staðla og áætlaða þörf hérlendis. Þá verði við næsta útboð sjúkraflugs hugað að því hvort ástæða sé til að gera körfur um stærð og útbúnað flugvélar sem rúmi þyngri sjúklinga. Í svarinu er ennfremur minnt á að allir einstaklingar eigi, óháð þyngd, að geta þegið sjúkraflug með þyrlum.
Í kjölfar atviksins í haust samþykkti hreppsnefnd Vopnafjarðar bókun þar sem harmað var að búnaður til sjúkraflugs hentaði ekki öllum sem gætu þurft að nota hann. Í kjölfarið sendi hreppsnefndin bréf til ráðuneytisins þar sem þess var krafist að búnaðurinn yrði uppfærður.
Yfirlæknir sjúkraflugs hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri sagði þá að það væri mismunun að fólki væri neitað um þjónustuna vegna þyngdar. Ákveðin rök væru þó fyrir reglunum, til dæmis þyrfti rými fyrir starfsfólk til að athafna sig ef eitthvað kemur upp á í fluginu. Vandamálið sé þekkt erlendis og verði algengara með vaxandi offitu.