Skip to main content

Vinna að því að komast að því hvar nemendur og kennarar eru

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. nóv 2023 12:48Uppfært 13. nóv 2023 12:48

Skólastjórnendur í Grindavík vinna nú að því að staðfesta hvar á landinu nemendur og starfsfólk er, eftir að þorpið var rýmt vegna hættu á eldgosi á föstudagskvöld. Skólastjórinn segir bæjarbúa slegna eftir helgina.


„Fólk er mjög slegið. Biðin og óvissan eru svo erfið,“ segir Eysteinn Þór Kristinsson, skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur. Eysteinn er uppalinn Norðfirðingur og var skólastjóri Nesskóla áður en hann flutti suður og tók við skólastjórastöðunni í Grindavík sumarið 2021.

Hann býr sjálfur í Reykjavík og var á heimleið þegar jarðskjálftarnir byrjuðu fyrir alvöru seinni partinn á föstudag. „Það voru ekki stórir skjálftar áður en skóla lauk um 13:30 á föstudag. Mestu lætin byrjuðu eftir klukkan 15. Þegar ég fór heim heyrði frá húsverðinum að það væri að detta niður úr kerfisloftinu og þess háttar. Við vitum ekki hvernig ástand skólahúsnæðisins er núna. Hann er í tveimur húsum og aðalbyggingin er ofan á sprunginni sem svo mikið hefur verið rætt um yfir helgina.“

Viðbúið að nemendur mæti í skóla víðsvegar um land


Um kvöldmat á föstudag fóru gögn að sýna jarðvísindafólki að kvikugangur hefði fært sig til og væri kominn undir byggðina að hluta. Á ellefta tímanum um kvöldið voru upplýsingarnar orðnar skýrari og ákveðið að rýma bæinn alveg. Fjöldi fólks var þá þegar farinn enda ólíft í jarðskjálftunum.

Eysteinn segir að yfir helgina hafi verið unnið að mögulegum lausnum á skólahaldi Grindvíkinga til frambúðar. Með öllu er óljóst hvenær fólk geti snúið aftur í bæinn til dvalar. „Við funduðum með almannavörnum strax á laugardag og aftur í gær. Það er búið að kalla til fræðslustjórana á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjunum og í raun austur fyrir fjall. Til lengri tíma litið erum við bjartsýn á að finna lausnir.

Það er viðbúið að þær verði blandaðar þar sem nemendur verði í skólum víðsvegar um land en við viljum einnig geta boðið upp á kennslu fyrir stærri hópa. Við erum með ákveðnar hugmyndir en síðan kemur í ljós hvort þær gangi upp. Við eigum eftir að hitta starfsfólkið en verðum með opið hús í dag.“

Fólk ekki komið með húsnæði til lengri tíma


Aðalvinnan hefur verið að afla upplýsinga um hvert nemendur og starfsfólk hafi farið eftir að bærinn var rýmdur. „Fólkið dreifist um Suðurland, Vesturland, Norðurland, Reykjanes og höfuðborgarsvæðið. Af því að fólk fór í skyndingu þá er það ekki með langtímahúsnæði heldur fékk húsnæði til skemmri tíma og er að leita sér að einhverju til að dvelja lengur.

Við erum með rúmlega 550 nemendur fyrir utan það stóra samfélag sem er utan um skólann. Við erum komnir með upplýsingar frá um 300 foreldrum, sem er ágætt.“

Austfirðingar senda kveðjur og bjóða hjálp


Hann segir mikla samstöðu í samfélaginu í Grindavík auk þess sem boð um hjálp berist víða af landinu. „Grindvíkingar eru því miður vanir áföllum í gegnum sína sögu. Þetta er sjávarpláss sem högg hafa hoggið skörð í. Það er mikill samhugur í fólkinu og það vinnur ótrúlega vel saman. Samt má alltaf reikna með að áföll eins og þetta hafi þau áhrif að einhverjir snúi ekki til baka.

Það eru allir boðnir og búnir til að hjálpa. Við deilum þeim boðum sem við fáum út á upplýsingasíður, meðal þess sem ég deildi þar var mynd frá körfuknattleiksdeild Hattar.“

Umrædd mynd er með upplýsingum um æfingar hjá deildinni. Henni fylgja skilaboð um að Grindvíkingum sem komi austur sé boðið að æfa frítt með deildinni.

Þá er Fjarðabyggð meðal þeirra sveitarfélaga sem hafa sent Grindvíkingum kveðju. Í henni segir að hugur íbúa Fjarðabyggðar sé meðal Grindvíkinga sem hafi þurft að yfirgefa heimili sín án þess að vita hvenær þeir geti snúið aftur. Lýst er aðdáun á samhæfðu og öflugu viðbragði þar sem lögð sé nótt við dag til að tryggja öryggi íbúa.

Mynd: Grindavíkurbær