Vinna hafin að bæta enn frekar gönguaðstöðu ferðafólks við Stuðlagil

Vinna er nú formlega hafin að bæta enn frekar aðgengi ferðafólks að náttúruperlunni Stuðlagili en í sumar skal fara langleiðina með að bæta og stækka göngu- og tengistíga í landi Grundar auk þess sem komið verður fyrir fjórum nýjum göngubrúm. Öryggi ferðafólks mun stóraukast með framkvæmdunum.

Leyfi til framkvæmda fékkst formlega frá Múlaþingi í byrjun júní og gerir verkáætlun ráð fyrir að nota júní og júlí til að stækka og styrkja göngustíga með smágröfu nægilega mikið til að hægt verði að fara um þá á fjór- eða sexhjólum. Þörf er á því þar sem nota þarf slík hjól til að ferðast um svæðið með efni til að ljúka verkinu en jafnframt til viðhaldsverkefna síðar meir.

Fjórar nýjar göngubrýr verða einnig settar niður með hjálp krana eða þyrla en þegar framkvæmdum við stígagerðina verður lokið verður komin á hringtenging um svæðið Grundarmegin Stuðlagils eins og sést á meðfylgjandi mynd. Það mun dreifa frekar þeim mikla fjölda ferðafólks sem staðinn sækir en síðustu árin hefur Stuðlagil verið vinsælasti ferðamannastaður Austurlands.

Í ágúst er svo ætlunin að setja upp og ljúka frágangi á öllum pöllum og stígum auk þess sem handrið verða sett á brýrnar fjórar. Stærstum hluta verksins skal lokið fyrir veturinn en lokafrágangur áætlaður í júní eða júlí á næsta ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.