Skip to main content

Vinna hafin við minningarreit í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2022 11:07Uppfært 05. maí 2022 11:08

Vinna er hafin við gerð sérstaks minningarreits um alla þá sem látið hafa lífið vegna starfa sinna fyrir Síldarvinnsluna en reiturinn rís á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóðunum í desember 1974.

Ákveðið var við 60 afmæli Síldavinnslunnar árið 2017 að reisa skyldi minningarreitinn og var í kjölfarið efnt til samkeppni þar sem öllum gafst kostur á að koma með hugmyndir að reitnum. Kröfurnar voru að hann yrði friðsæll og hlýlegur og aðstaða til að setjast niður og njóta kyrrðar. Þar skyldi líka vera minningarskjöldur um fólkið sem látist hefur og taka þurfti mið af gömlum gufuketli sem enn stendur á svæðinu og á að vera hluti verksins.

Tillaga Kristjáns Breiðfjörðs Svavarssonar þótti bera af en jafnframt fékk tillaga Ólafíu Zoëga verðlaun. Landmótun-landslagsarkitektar hönnuðu svo svæðið á grundvelli hugmyndanna tveggja og nú er vinna hafin við verkið.

Mynd: Tölvugerð mynd af minningarreitnum sem nú rís á lóð gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað. Mynd Landmótun