Vinna þarf annað nýtt deiliskipulag á hafnarsvæði Vopnafjarðar
„Vandamálið hér er það að lóðin sem þeir hafa óskað eftir liggur að hluta til inn í nýju samþykktu deiliskipulagi en að hluta til ekki,“ segir Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Vopnafjarðar.
Hreppurinn hefur þurft að vísa frá fyrirtæki sem hug hafði á nýrri lóð við hafnarsvæðið í bænum, í það minnsta meðan að nýtt deiliskipulag verður gert fyrir svæðið frá Ásgarði og að smábátahöfn sem utar liggur. Einungis eru nokkrar vikur síðan að nýtt deiliskipulag fyrir miðhluta sama hafnarsvæðis fékk grænt ljós en þar ráðgerir útgerðarfyrirtækið Brim töluverðar framkvæmdir við að breyta fiskvinnslu sinni til nútímalegri vega.
Sveitarstjórn tók erindið fyrir nýlega og þar bókað að mikið plássleysi sé fyrirsjáanlegt á hafnarsvæði bæjarins og lagt til að vinna við nýtt deiliskipulag í norðurhlutanum hefjist fljótlega.