Virkjunarleyfi gefið út fyrir Þverá í Vopnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. mar 2022 09:56 • Uppfært 31. mar 2022 09:59
Orkustofnun hefur gefið út leyfi til virkjunar Þverár í Vopnafirði. Framkvæmdir hófust þar síðasta sumar og er gert ráð fyrir að virkjunin taki til starfa í lok þessa árs.
Leyfið er gefið út til Þverárdals ehf., dótturfyrirtækis Arctic Hydro. Áin verður stífluð í um 240 metra hæð þannig til verður miðlunarlón, um 1,5 hektarar að stærð.
Vatnið er síðan leitt í þrýstipípu að stöðvarhúsi við ármót Þverár og Hofsár um 5,4 leið sem skilar um 200 metra fallhæð. Þaðan rennur vatnið aftur úr í Þverá. Áætlað afl virkjunarinnar er allt að 6 MW. Samið hefur verið við Rarik um tengingu við dreifikerfi.
Í gögnum, sem fylgja virkjunarleyfinu, kemur fram að kostnaður við framkvæmdina er áætlaður tveir milljarðar króna. Þverárdalur leggur fram fjórðung þess með eigin fé en afgangurinn er lán frá Íslandsbanka.
Kostnaðurinn skiptist nokkuð jafnt milli fjögurra verkþátta. Pípan og framkvæmdir við hennar eru dýrust, 640 milljónir, undirbúningur áætlaður um 480 milljónir, stöðvarhúsið 470 milljónir og stíflan 410.
Vatnsréttindi tilheyra þremur jörðum. Egilsstaðir eiga helminginn, Hrappsstaðir 3/8 en Háteigur 1/8. Síðastnefnda jörðin er í eigu Sólarsala, félags Jim Ratcliffe.
Skipulagsstofnun skilaði áliti sínu á umhverfisáhrifum virkjunarinnar árið 2019. Mestu áhyggjurnar voru af skerðingu á votlendi og raski á ósnortnu svæði vegna stíflunnar og pípunnar. Orkustofnun tekur ekki afstöðu til þeirra skilyrða sem Skipulagsstofnun setti, þar sem þau eru utan valdsviðs Orkustofnunar.
Í leyfinu er hins vegar bent á að við mat á flóðahættu, með 500 ára endurkomutíma, hafi verið stuðst við gögn úr Fjarðará í Seyðisfirði þar sem vatnshæð hafi aðeins verið mæld í Þverá í tvö ár. Þau gögn dugi ekki til að reikna út endurkomutíma flóða. Orkustofnun gerir ekki athugsemd við útreikningana en bendir á að óvissa fylgi veikum gögnum. Þess vegna þurfi að fylgjast með rennsli og endurmeta flóðaáhættuna í Þverá.
Umsókn um virkjunarleyfið var send inn síðasta sumar. Orkustofnun gerði athugasemdir og óskaði eftir nánari útskýringum sem bárust síðasta haust. Virkjunarleyfið var síðan auglýst, engar athugasemdir bárust við það.
Frá upphafi framkvæmdanna í fyrra. Mynd: Arctic Hydro