Vísbendingar um að útstöðvar hafi áfram verið reknar eftir landnám

Sterkar vísbendingar eru um að hinn eldri tveggja skála sem hafa verið til rannsókna í Stöð í Stöðvarfirði sé ekki hefðbundinn landnámsskáli heldur útstöð. Sé það rétt sýnir skálinn að útstöðvar hafi lifað áfram á Íslandi inn í landnámið. Útstöðvar og landnámsbýli hafi því lifað hlið við hlið um einhvern tíma þar til tími útstöðvanna leið undir lok, líklega snemma á landnámsöldinni. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu dr. Bjarna F. Einarssonar um fornleifarannsóknir síðasta sumars að Stöð. Var það áttunda árið sem rannsóknir fara fram en áður höfðu könnunarrannsóknir farið fram eitt sumar. Einkum var eldri skálinn á svæðinu til rannsóknar í sumar. 

Niðurstöður kolefnisgreininga síðasta sumars og sumarsins 2022 benda til þess að yngri skálinn sé byggður um árið 950 og hefur að líkindum verið við lýði rétt fram yfir árið 1000. Eldri skálinn sé hins vegar ekki reistur fyrir landnám heldur sé hann frá því í upphafi landnáms, um árið 870. Hins vegar virðist ljóst, og það sýna fyrri aldursgreiningar, að leifar undir eldri skálanum séu eldri og frá því fyrir árið 870. 

Munur á fundnum gripum

Þá bendir allt til þess að talsverðan mun megi sjá á hlutverkum skálanna þegar fundnir gripir eru skoðaðir. Sá yngri sé hefðbundinn landnámsskáli höfðingja. Gripir þeir sem fundist hafa í eldri skálanum geta hins vegar bent til annarra athafna en hefðbundinna bústarfa og þess sem almennt einkenndi líf og starf á landnámsbýlum. Leiða má að því líkum að eldri skálinn hafi beinlínis verið framhald af útstöð sem áður hafi staðið að Stöð, og síðan breyst í hefðbundið landnámsbýli. 

Útstöðvar eru vel þekktar í norrænum menningarheimi. Konungar, höfðingjar eða stórbændur sendu fólk sitt á slíkar útstöðvar, fjarri heimkynnum sínum, í því skyni að afla og vinna úr þeim auðlindum sem var að finna á hverjum stað. Á Austurlandi má gera ráð fyrir að veiddur hafi verið fiskur, selur og fugl, jafnvel hvalur eða hákarl. Kjöt og spik hefur verið verkað og lýsi unnið. Þessar afurðir hafa síðan verið fluttar til heimahaganna, líklega einkum á Norðurlöndunum, að hausti og nýttar þar eða seldar heima fyrir. 

Meðal þeirra raka sem dr. Bjarni leiðir fram fyrir því að eldri skálinn hafi í raun verið útstöð sem staðið hafi hér eftir landnám og á sama tíma og land var að byggjast, eru meðal annars þau að frumniðurstöður greininga benda ekki til skepnuhalds í eldri skálanum. Þá hafa vart fundist tóvinnuáhöld í eldri skálanum en tóvinna hafi greinilega verið mikilvægur þáttur í yngri skálanum, rétt eins og þekkt er í bústörfum annarra landnámsbýla. 

Í þessu ljósi, segir í skýrslunni, kann mikil munur á fundnum gripum á Stöð einmitt að skýrast af mismunandi starfsemi í skálunum tveimur, það er að segja að annar hafi verið útstöð og hinn hefðbundinn landnámsaldar skáli. 

Gripir í yngri skála gætu verið „endafórn“

Mikil fjöldi fundinna gripa í yngri skálanum getur þó skýrst af öðrum þáttum. Fleiri gripir hafa fundist í honum en í öðrum meintum höfðingjaskálum á Íslandi. „Ekki er hægt að varast þeirri hugsun að gripafjöldinn í Stöð stafi ekki aðeins af ríkidæmi býlisins heldur einnig af því að gripirnir séu eins konar endafórn skálans þegar hann var yfirgefinn og ný íveruhús byggð ofar í hlíðinni þar sem bærinn hefur staðið alla tíð síðan.“

Sá flutningur gæti hafa verið í tengslum við nýjan sið, kristnina, sem var að ryðja sér til rúms í landinu og höfðingjar voru einna fyrstir til að tileinka sér. „Gripir eins og öxi, skutlar og skæri fara ógjarnan fram hjá fólki sem er að yfirgefa húsakynni sín.“


 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.