Skip to main content

„Vita menn ekki að fólk býr hérna?“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. ágú 2023 13:42Uppfært 11. ágú 2023 14:11

Kurr er í nokkrum fjölda fólks á Seyðisfirði vegna ákveðins tillitsleysis á mörgum þeim stóru skemmtiferðaskipum sem þangað venja komur sínar um þessar mundir. Tillitsleysi sem má hugsanlega flokka sem hávaðamengun.

Umræðan um alvarlega loftmengun frá miklum fjölda skemmtiferðaskipa sem farin eru að heimsækja ýmsar hafnir á Íslandi í miklum mæli hefur verið í hávegum að undanförnu. En í þröngum Seyðisfirðinum er fleira að angra ýmsa bæjarbúa og reyndar gesti líka: hávaðamengun.

Svo er mál með vexti að flest skipin státa af miklu kallkerfi utan- sem innandyra þar sem farþegar fá ýmsar upplýsingar sem þarft er að vita um þjónustu og öryggi um borð. Gallinn sá að það eru mun fleiri en farþegar skipsins sem fá þessar upplýsingar því kallkerfin geta verið það öflug að skilaboð skipverja til farþega sinna heyrast um stóran hluta bæjarins. Sérstaklega þegar veður er milt og gott.

Helgi Örn Pétursson tók myndband þegar ein slík skilaboðaruna gall í kallkerfi eins slíks skips og fer ekkert á milli mála að vel heyrist upp á land. Þó Helgi sé frá Seyðisfirði er hann þar ekki búsettur nema hluta árs en segir að hávaði sem þessi heyrist bæði æði vel og stundum oft á dag í tilfellum.

„Þetta heyrist auðvitað mismikið í bænum. Myndbandið tók ég frá Austurvegi við Skaftfell Bistro og það heyrist mjög vel þar og allt í kring. Það er eflaust betra innar í bænum en ég veit þetta fer í taugarnar á mörgum þó mismikið sé. Auðvitað sýnist sitt hverjum með þennan fjölda skemmtiferðaskipa hér. Sumum þykir þetta hið besta mál og vilja fleiri meðan aðrir eru minna sáttir. Það gjarnan talað um loftmengun en svo kemur hljóðmengun sem þessi í viðbót og svo veit ég að ágangur margra ferðamanna er umkvörtunarefni hjá sumum. Þeir hanga á gluggum, fara inn í garða fólks og í stöku tilfellum inn í hús og virðast ekki gera sér grein fyrir að hér býr fólk. Á köflum mætti halda að ferðafólkið líti á Seyðisfjörð sem eitthvað Disneyland á Íslandi. Að básúna einhverjar tilkynningar sem ná yfir allan fjörðinn við tilteknar aðstæður er einn angi af þessu. Svona tillitsleysi við íbúana að mínu mati og álit fleiri sem ég þekki hér í bænum.“

Myndband Helga, sem hann birti á Facebook í gær, hefur vakið athygli og fólk þar tekið undir að um mikið tillitsleysi sé að ræða. Það hljóti að vera hægt að slökkva á kallkerfi utan á skipinu þegar lagt er að í svo þröngum firði sem Seyðisfjörður sé.

https://www.facebook.com/658759709/videos/951914122707450/