Skip to main content

Vitnuðu gosið á Reykjanesskaga frá upphafi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. des 2023 11:59Uppfært 19. des 2023 14:12

Það var skyndileg og óvenjuleg birta á Reykjanesskaganum sem varð til þess að skipstjórinn á Polar Ammassak, sem var rétt utan Reykjaness á leið til Hafnarfjarðar, greip kíki sinn í gærkvöldi og kannaði málið. Næstu mínútur fylgdist hann og áhöfn skipsins öll með þegar stórt svæði rifnaði bókstaflega upp vegna eldsumbrotanna við Sundhnúk.

Geir Zoéga, skipstjóri, segir sjónarspilið hafa verið með ólíkindum og vart hægt að vera betur staðsettur til að vitna dýrðina þegar enn einu sinni byrjaði að gjósa á skaganum upp úr klukkan 22 í gærkvöldi. Hann fyrirskipaði nánast umsvifalaust að öll ljós á skipinu yrðu slökkt svo hægt væri að fylgjast enn betur með og ekki síst ná betri myndum og það gerðu þeir sannarlega eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem skipverjar tóku.

„Þetta var með ólíkindum að vitna þetta frá byrjun og sjá þetta snarvaxa og stækka á skömmum tíma. Klárlega eitthvað sem maður upplifir líklega aðeins einu sinni á ævinni. Mig grunaði auðvitað strax í upphafi að þarna væri eldgos hafið en það voru þá engar fréttir af neinu gosi í fjölmiðlum en það kom reyndar fljótlega aðeins síðar.“

Polar Ammassak er í eigu grænlensks dótturfyrirtækis Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og áhöfnin samanstendur bæði af Íslendingum og Grænlendingum. Skipið var á leið til Hafnarfjarðar eftir að hafa landað síld í Danmörku.

Forsíðumyndin sýnir gosröndina skömmu eftir að það hófst en hin síðari flott útsýnið úr brú skipsins en þar fylgdust meðal annars með Guðbjartur Gunnþórsson, stýrimaður, og Geir skipstjóri sjálfur.