Von á úrslitum um tveimur tímum eftir lokun kjörstaða

Reiknað er með að úrslit kosninganna í sveitarfélögunum fjórum á Austurlandi liggi víðast fyrir um tveimur tímum eftir að kjörstaðir loka. Tæplega átta þúsund manns eru á kjörskrá þar.

Alls eru 7.943 einstaklingar á kjörskrá í Vopnafjarðarhreppi, Fljótsdal, Múlaþingi og Fjarðabyggð á morgun.

Flestir eru í Fjarðabyggð, 3.689. Stærsta kjördeildin er í Neskaupstað með 1.121 en þar er líka ein minnsta kjördeild landsins en sextán manneskjur eru á skrá í Mjóafirði.

Kristjana Mekkin Guðnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar Fjarðabyggðar, segir að byrjað verði að telja upp úr klukkan 20 og búist við að tölur verði tilkynntar í þrígang, þær fyrstu upp úr klukkan 22 þegar kjörstaðir loka. Síðan verði birtar aðrar millitölur en óvíst sé hvenær þær sem og lokatölurnar liggi fyrir. Talið verður í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði.

Örlítið færri eru á kjörskrá í Múlaþingi, 3.663. Fljótsdalshérað vegur þar þyngst með alls 2.663 kjósendur en samanlagt eru 1.000 í hinum þremur á Djúpavogi, Borgarfirði og Seyðisfirði.

Hlynur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar Múlaþings, segir að talning byrji eftir klukkan 22 en mögulega verði fyrr byrjað að telja atkvæði úr kosningum til heimastjórnar. Það velti á því hvenær kjörgögn skili sér frá Djúpavogi og Borgarfirði en þar lýkur auglýstum kjörfundi annars vegar klukkan 18 og hins vegar kl 17.

Reglur eru hins vegar þannig að kjörfundur framlengist um hálftíma í senn ef kjósandi skilar sér rétt fyrir tímafrest, eða allt fram til klukkan 22 ef því er að skipta. Hlynur reiknar ekki með að þar verði birtar neinar millitölur, aðeins lokatölur upp úr miðnætti ef allt gangi vel.

Á Vopnafirði eru 506 á kjörskrá og bæði kosið og talið í félagsheimilinu Miklagarði. Heiðbjört Antonsdóttir, formaður kjörstjórnar, segir að ef hægt verði að loka kjörstað á auglýstum tíma klukkan 18 ætti talning að geta hafist upp klukkustund síðar og úrslit legið fyrir um klukkan 20.

Í Fljótsdal eru 85 á kjörskrá og kjörfundur í félagsheimilinu Végarði auglýstur til 18:00. Þar er óhlutbundin kosning þar sem kjósendur skrifa nafn og heimilisfang þess sem þeir vilja kjósa á kjörseðilinn. Jósef Valgarð Þorvaldsson, formaður kjörstjórnar, segir það helst geta tafið ef úrskurða þurfi um vafaatriði. Það hafi aðeins einu sinni gerst svo hann muni til, annars sé í kosningalögunum talað um að atkvæði sé gilti ef skýr vilji kjósanda komi fram.

Úrslitin ættu að liggja fyrir 1-2 tímum eftir lokun kjörstaðar. Virðist það helst velta á því hvort kjörstjórnin fari í kvöld mat þegar gengið hefur verið frá gögnunum en áður en hún telur eða hvort það verði þegar öllu sé lokið. Það verði ákveðið þegar þar að kemur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.