Vonast til að Alcoa leggi fram nýtt tilboð í dag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. sep 2025 09:31 • Uppfært 10. sep 2025 09:31
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags, vonast til að samninganefnd Alcoa Fjarðaáls leggi fram nýtt tilboð í kjaradeilu starfsfólks í álverinu á fundi sem hefst klukkan tíu. Verkfallsboðun er yfirvofandi.
Viðræður í deilunni hafa staðið síðan í desember og samningar losnuðu í lok febrúar. Ríkissáttasemjari kom að borðinu í apríl en þrátt fyrir það hefur deilan verið í hnút. Í júlí lýsti hann yfir árangurslausum viðræðum og AFL hóf undirbúning verkfalls.
AFL og Rafiðnaðarsambandið semja fyrir hönd launafólks og fulltrúar þeirra sátu óformlegan samningafund á vegum sáttasemjara með samninganefnd Alcoa Fjarðaáls seinni partinn í gær. Formlegur samningafundur var boðaður í kjölfarið og hefst klukkan tíu.
„Niðurstaða fundarins í gær var að við samþykktum fund í dag í von um að eitthvað verði lagt fram. Kannski er það bjartsýni en ég geri mér vonir um að eitthvað verði lagt á borðið í dag til að freista þess að leysa deiluna áður en hún endar í algjörum hnút,“ segir Hjördís Þóra.
Nánar aðspurð segist hún hóflega bjartsýn um að samninganefnd Alcoa hafi nokkuð nýtt fram að færa. „Ég er ekki viss en tilbúin að láta á það reyna.“
Samninganefndin á að hafa skýrt umboð
Verkalýðsfélögin hafa gagnrýnt það sem þau telja umboðsleysi samninganefndarinnar og að hún þurfi að fá heimildir erlendis frá. Fulltrúar Alcoa á fundinum í gær voru nýkomnir til landsins eftir ferð erlendis.
„Við höfum ekki skynjað að þeir fulltrúar sem sitja við borðið hafi umboð. Fernando Costa (forstjóri Alcoa Fjarðaáls) kom inn á fundinn í gær og sagði að nefndin hefði fullt umboð. Hvort það sé rétt á eftir að koma í ljós.“
Sex mánuðir þar til byrjað verður að slökkva á kerjum
Verkalýðsfélögin hafa undanfarnar vikur undirbúið verkfall. Á morgun verða haldnir fundir í trúnaðarráðum þeirra sem hafa það hlutverk að semja tillögu um verkfall sem kosið verður um. Hjördís Þóra segir að atkvæðagreiðsla geti hafist öðru hvoru megin við helgina, jafnvel strax á föstudag.
Verkfallsferlið í álverinu er flókið þar sem slökkva þarf á kerjum. Það hefst ekki fyrr en eftir sex mánuði sem yrði úr þessu vart fyrr en í mars. Þangað til geta samningafundir haldið áfram. Að slökkva á öllum kerjum álversins tekur þrjá mánuði og á þeim tíma leggja starfsmenn smá saman niður störf.
Hjördís Þóra segir að næstu skref ráðist alfarið af því hvað verði lagt fram á fundinum, til dæmis hvort samninganefndin taki sér tíma til að fara yfir tilboðið eða hafni því í versta falli strax. Hún hefur áður sagt að ekki komi til greina að semja um minni kjarabætur en í öðrum álverum hérlendis. „Við höfum verið skýr í okkar afstöðu. Við höfum ekki mikið svigrúm til frekari eftirgjafar frá okkar félagsmönnum.“
Frá samningafundi á vegum ríkissáttasemjara á Egilsstöðum í apríl.