Skotárásin: Vonast til að geta beðist afsökunar og fyrirgefningar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. feb 2022 19:38 • Uppfært 24. feb 2022 19:43
Ríflega fertugur karlmaður, sem ákærður er fyrir skotárás í Dalseli á Egilsstöðum, kveðst takmarkað muna eftir atburðum kvöldsins 26. ágúst. Hann kveðst á ákveðnum tímapunkti hafa áttað sig á að hann væri búinn að valda mörgu fólki skelfingu og vonbrigðum. Hann hafnar því að hafa nokkurn tíman haft uppi ásetning um að bana nokkrum manni.
Þetta kom fram við aðalmeðferð málsins sem hófst í Héraðsdómi Austurlands í morgun. Ákærði gaf þar skýrslu fyrstur. Hann játaði sök að hluta í þremur ákæruliðum af fimm, fyrir eignaspjöll, húsbrot, vopnalagabrot, brot gegn barnaverndarlögum og gegn valdstjórninni en hafnaði ákærum um hótanir, að hafa ógnað lögreglu og að hafa haft uppi ásetning um að myrða fyrrverandi sambýlismanni unnustu sinnar og lögregluþjón. Þá telur hann kröfur um miskabætur of háar.
Ákærði rakti í morgun atburði fimmtudagsins 26. ágúst frá sínu sjónarhorni. Hann sagði stöðug samskipti sambýliskonu sinnar við hennar fyrrverandi hafa pirrað sig. Meðal annars hefði maðurinn tveimur dögum fyrr sent henni skilaboð og spurt hvort rétt hefði verið að ákærði hefði ógnað mági sínum með skotvopni. „Það fór ekki vel í mig því það er haugalygi,“ sagði hann. Mágurinn sagði söguna uppspuna þegar hann bar vitni síðdegis og bætti við að ákærði hefði aldrei hótað sér.
Argur yfir samskiptum
Ákærði sagði að þetta kvöld hefði sambýliskona hans verið í samskiptum við sinn fyrrverandi. Það hafi ergt hann enn frekar þar sem til stóð að þau giftu sig um helgina. Ákærði kvaðst hafa viljað fá að sjá samskiptin og fá skjáskot af þeim til að geta varðveitt þær sakir sem upp á hann væru bornar þar sem ásakanirnar væru í sjálfu sér lögbrot.
Skömmu áður en ákærði og sambýliskonu hans varð sundurorða hafði hennar fyrrverandi komið ásamt syni þeirra að heimilinu. Strákurinn hljóp inn til að leita að sundskýlu sem ekki fannst og fóru feðgarnir því aftur eftir innan við tíu mínútna stopp.
Ákærði sagðist hafa reynt að ná símanum af konunni sem flúið hefði inn á bað. Næst hefði hann munað eftir sér á bílastæðinu fyrir utan sambýlismannsins í Dalseli á Egilsstöðum við að hlaða skammbyssu og haglabyssu sem hann hafði meðferðis. Maðurinn kvaðst ekki muna eftir hve mikið af skotum hann hefði haft meðferðis, en í máli saksóknara kom fram að nokkrir pakkar hefðu fundist á vettvangi „nokkrir pakkar.“ Ákærði sagði byssurnar hafa verið geymdar í skáp í bílskúr á heimili hans í Fellabæ. Hann neitaði að hafa beint skammbyssunni að unnustu sinni.
Rosalega reiður
Ákærði kveðst hafa farið inn í húsið þar sem drengirnir sátu í sófa og kallað hvar faðir þeirra væri. Strákarnir hefðu engu svarað heldur komið sér út úr húsinu. Aðspurður af saksóknara staðfesti ákærði að hann hefð verið rosalega reiður á þessum tímapunti. Hann neitaði að hafa beint byssunni að þeim og ekki hleypt af skotum fyrr en þeir hefðu verið farnir úr húsi.
Ákærði kvaðst hafa haft þann ásetning að lesa yfir hausamótum sambýlismannsins fyrrverandi til að fá frið fyrir samskiptum hans við sambýliskonu sína. Hann kvaðst síðar hafa komist að því að sú mynd sem hann hafði fengið af samskiptunum stæðist ekki og maðurinn hefði ekki átt þetta skilið. Skotvopnin hefði hann tekið vegna sögunnar sem borin var út um hann.
Fyrir dóminn voru lögð Messanger-skilaboð þar sem ákærði kvaðst vilja „taka kvikyndið út í kvöld.“ Hann kvaðst ekki geta skýrt þau, þarna hefði verið „sturluð reiði.“ Ákærði fullyrti að út frá sínum karakter gæti hann staðið við að hafa ekkert illt viljað húsráðanda.
Hann hefði síðan farið sjálfur út og hringt á föður drengjanna og átt við hann orðaskipti. Viðbrögð föðurins hefðu ergt hann enn frekar og hann þá ákveðið að skjóta „bílana hans í kássu. Ég held ég hafi gert það því hann var stoltur og ánægður með Landcruiser-inn sinn. Ég ákvað að endurhanna hann aðeins,“ sagði ákærði.
Skaut ósjálfrátt að lögreglu
Að þessu búnu fór ákærði aftur inn í húsið og skaut skotum þar. Hann hafi gengið yfir í bílskúr hússins en þá hafi lögregla verið mætt og kallað að hún væri vopnuð. Út undan sér hafi hann séð lögregluskjöld en ekki lögregluþjón. Honum hafi brugðið við það og ósjálfrátt skotið þremur skotum úr haglabyssunni úr forstofunni út í gegnum útidyrnar. Hann sagði atvikið hafa gerst hratt og ekki áttað sig á hvert hann skyti. Slíkt sé ekki eitthvað sem gerist venjulega, en aðstæður hafi alls ekki verið venjulegar. Skot úr haglabyssunni höfnuðu í bílum fyrir utan og húsinu hinu megin götunnar. Lögregla skaut á móti á þessum tímapunkti. Ákærði taldi þetta hafa tekið 4-5 sekúndur.
Hættur að sjá leið til baka
Ákærði fór aftur inn í húsið og upp hófst umsátursástand sem virðist hafa staðið í meira en hálftíma, miðað við þá tímalínu sem fram kom í dóminum í dag. Ákærði sagði að á þessum tímapunkti hefði verið farið að renna upp fyrir honum að staða hans væri orðin erfið eftir gjörðir hans, framtíðaráform farin í mola og hann hefði valdið fólki sem væri honum nákomið vonbrigðum og skelfingu. Þessu hafi hann reyndar gert sér grein fyrir eftir að hafa skotið á bílana en þá hætt að sjá leið til baka.
Hann hefði því ákveðið að láta lögregluna drepa sig. Þá hefði hann gengið út með byssuna, þvert fyrir framan sig eins og þegar gengið er til veiða. Hann kvaðst hafa gengið greitt að lögreglubíl sem lagt var á götuna fyrir utan húsið. Kallað hefði á hann að láta vopnið frá sér. „Ég heyri í þeim og veit þeir eru þarna en sá þá aldrei.“
Hann kvaðst ekki hafa haft uppi ásetning um að drepa neinn. Hann hefði viljað að lögreglan upplifði ógn en ekki haldið í gikk byssunnar, heldur lagt hana á húddið og rétt hana upp. Þá hafi lögregla skotið sig.
Líður skelfilega yfir að hafa lagt þetta á fólk
Ákærði lýsti mikilli iðrun í vitnastúkunni. „Mér leið skelfilega eftir þetta og líður enn. Að hafa lagt þetta á strákana, föður þeirra og alla aðra. Lögregluþjóninn sem þurfti að skjóta mig. Þótt menn æfi og þjálfi er ekkert sem æfir þig fyrir að taka í gikkinn og þurfa að skjóta aðra manneskju.
Hann [faðir drengjanna] átti þetta ekkert skilið. Það er ekkert illt milli okkar og hefur í raun aldrei verið. Ég vil honum ekkert illt. Ég er viss um að ég fái einhvern tíman tækifæri til að geta beðið hann afsökunar og fyrirgefningar.“
Hann sagði einnig að samband hans við drengina hefði verið gott en það væri ekki til staðar eftir atburðina. Hann kvaðst einnig vilja biðja þá afsökunar.
Aðspurður svaraði ákærði að hann hefði drukkið fjóra hálfs lítra bjóra og einn minni frá því hann kom heim klukkan fjögur um kvöldið, en árásin átti sér stað á ellefta tímanum. Minnisleysi sitt tengdi hann kvíðalyfi sem hann væri á. Hann hefði ekki lent í minnisleysi samfara áfengisdrykkju fyrr en þetta sumar.
Lögregluþjónar á vettvangi veittu ákærða fyrstu hjálp eftir að hann var skotinn áður en sjúkralið kom að. Hann var síðan fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann gekkst undir aðgerð. Frá því ákærði útskrifaðist af spítala hefur hann setið í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði. Hann sagði aðstæður þar ekki góðar, aðeins harða bekki sem farið hefðu með bakið á honum. Hann hefði heldur ekki fengið neina ráðleggingu um endurhæfingu. Slíkt kunni að hafa valdið því að hann lenti síðar á hjartadeild í viku. Það hefði verið mikið bakslag, bæði andlega og líkamlega.