Vonast til að geta hafið tilraunadælingu úr heitri holu á Djúpavogi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. mar 2022 16:46 • Uppfært 01. mar 2022 16:47
HEF veitur undirbúa nú að hefja tilraunadælingu úr heitavatnsholu sem boruð hefur verið í nágrenni Djúpavogs. Vonir standa til að heitt vatn þar muni í framtíðinni nýtast við húshitunar á svæðinu. 1100 milljónir eru áætlaðar í veituframkvæmdir á Djúpavogi á næstu fjórum árum.
Búið er að bora um 30 holur skammt innan við þéttbýlið en ekki verið haldið lengra. Á íbúafundi á Djúpavogi í síðustu viku sagði Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veitna, að til stæði að halda áfram á næstu mánuðum. HEF veitur eru alfarið í eigu sveitarfélagsins Múlaþings.
„Við vonumst til að geta sett af stað tilraunadælingu fyrir hásumarið. Okkar sýn er að þetta sé tækifæri og við megum ekki bíða lengur með að fullvissa okkur um að þetta sé fýsilegt. Þetta er verkefni sem er ofarlega á blaði hjá okkur,“ sagði hann.
„Næsta skref væri að borga holu niður á 600-800 metra dýpi. Það væru frumstæð hola sem ekki nýtist í hitaveituvæðingu heldur nýtist vitneskjan sem fæst með henni til að meta hvort eigi að dýpka hana og víkka þannig að hægt sé að vinna nægt vatn úr henni.
Við vinnum með þeim jarðfræðingi sem mest hefur komið að þessu verkefni og hann telur að í þessari holu sé að vinna 70-80 gráðu heitt vatn í vinnanlegu magni,“ sagði Aðalsteinn.
Eitt af því sem strandað hefur á er kostnaðarþátttaka ríkisins í verkefninu þar HEF veitur og Orkusjóður hafa verið ósammála um aðferðafræði við rannsóknina. Áætlað er að hitaveituvæðingin kosti 645 milljónir á næstu fjórum árum. Þunginn yrði á næsta ári, 325 milljónir, sem felur í sér virkjun og stofnlögn inn í bæinn. Vonast er til að ríkið taki þátt í hátt í helmingi kostnaðarins.
Tryggja vatnsveituna
Aðalsteinn fór yfir fleiri verkefni á vegum HEF á Djúpavogi. Hann sagði vatnsveitutank á Ránarkletti líta betur út heldur en talið hefði verið og vera í fínu standi. Áttatíu milljónir höfðu verið teknar frá í endurnýjun hans á þessu ári en engin ákvörðun liggur fyrir um það. Áætlaður heildarkostnaður verksins er 160 milljónir.
HEF veitur hafa óskað eftir því við sérfræðinga hjá Háskóla Íslands að meta áhættu af öskufalli úr Öskjugosi á opin vatnsból Djúpavogs og Seyðisfjarðar. Land reis þar um 20 sentimetra frá september fram í janúar.
Umgangsmiklar fráveituframkvæmdir
Annað stórt verkefni á vegum HEF veitna eru fráveituframkvæmdir. Eftir að HEF veitur tóku við því verkefni af gamla Djúpavogshreppi hafa orðið talsverðar breytingar. Til stóð að vera með átta aðrennslissvæði fráveitu og jafn margar útrásir. Þeim hefur verið fækkað niður í fjórar sem myndu tengjast sameiginlegri lögn sem lægi út á Langatanga þar sem yrði sameiginleg hreinsunarstöð og útrás. Áætlaður kostnaður eru tæpar 260 milljónir á næstu fjórum árum. Ríkið gæti styrkt 20% af því. Lögn frá Hóteli Framtíð austur fyrir Langatanga yrði fyrsti áfangi.
Að auki hefur Búlandstindur óskað eftir að fá að tengja affall úr væntanlegri starfsemi sinni í Gleðivík inn á lögnina. Það flækir framkvæmdir töluvert, því til að tengja slíka lögn út á Langatanga þyrfti að fara yfir, fyrir eða inn fyrir Djúpavoginn. Fram kom á fundinum frá fulltrúa Búlandstinds að fyrirtækið vildi tengjast inn á þessa lögn frekar en vera með eigin útrás í Gleðivík til að koma blóðþorra út í sterkari strauma til að minnka líkur á að leifar úr því berist inn í Berufjörð.