Vonast til að hönnun nýs vegar um Reyðarfjarðarbotn verði lokið 2025
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. feb 2024 14:21 • Uppfært 07. feb 2024 14:28
Vegagerðin vinnur að hönnun nýs vegar um botn Reyðarfjarðar og brúar yfir Sléttuá með það að markmiði að allt sé tilbúið ef fjármagn fæst í framkvæmdina fyrr en hugað hefur verið. Ástand Suðurfjarðarvegar og þjónusta á honum var í forgrunni á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar með Vegagerðinni í síðustu viku.
„Þetta var mjög góður og árangursríkur fundur. Fulltrúar Vegagerðarinnar voru jákvæðir og tilbúnir að ræða við okkur um okkar áhyggjur. Þau eru vel meðvituð um stöðuna á veginum,“ segir Stefán Þór Eysteinsson, formaður bæjarráðs. Fjórir stjórnendur Vegagerðarinnar sátu fundinn, þar með talið forstjórinn Bergþóra Þorkelsdóttir.
Stefán Þór segir að bæjarfulltrúarnir hafi lagt mesta áherslu á að fá upplýsingar um áform um nýjan Suðurfjarðaveg, milli Reyðarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Samkvæmt drögum að samgönguáætlun, sem er hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, er veginum áfangaskipt þannig að fyrst á að byrja á Reyðarfjarðarbotninum árið 2027.
Fjarðabyggð hefur þrýst á að það verði fyrr, ekki síst vegna einbreiðar brúar yfir Sléttuá. „Vegagerðin reynir að gera það sem hægt er þannig hægt sé að fara af stað um leið og fjármagn hefst. Skipulagið er tilbúið hjá Fjarðabyggð og Vegagerðin sinnir rannsóknum og vinnur að hönnun vegarins. Ef allt gengur eftir þá á hún að vera tilbúin árið 2025,“ segir Stefán.
Vilja moka fyrr milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur
Þá komu bæjarfulltrúarnir á framfæri óskum um að vetrarþjónusta verði efld á leiðinni. Þær óskir bárust meðal annars á íbúafundum sem sveitarfélagið stóð fyrir í janúar. Samkvæmt núgildandi flokkun Vegagerðarinnar á leiðin milli Breiðdalsvíkur og Fáskrúðsfjarðar að vera þjónustuð frá klukkan sjö á morgnana en til samanburðar er þjónusta á Fagradal og Hólmahálsi frá 6:30.
„Þetta er hálftími sem fólk á leið til vinnu munar um. Fulltrúar Vegagerðarinnar tóku jákvætt í að skoða hvað hægt sé að gera en útskýrðu líka skilgreiningar sem búa að baki flokkun vetrarþjónustu,“ segir Stefán.
Fleiri ferðir í Loftbrúna
Eins var rætt um almenningssamgöngur, bæði á vegum og í lofti. „Við ræddum hvort hægt væri að nýta þau almenningssamgöngukerfi sem hér eru betur. Við erum með okkar kerfi innan Fjarðabyggðar en síðan rekur Vegagerðin flugrútu. Flugrútan frá Norðfirði í Egilsstaði og rútan í kerfinu okkar, frá Norðfirði til Reyðarfjarðar, leggja af stað þaðan með stuttu millibili.
Loftbrúin er á forræði Vegagerðarinnar og við ræddum um að fjölga flugleggjum, eins og fólk hefur kallað eftir sem og meiri möguleika fyrir íþróttafélögin, því flugið er stór liður í þeirra rekstri. Svörin sem við fengum voru að núverandi fjármagn sé fullnýtt, sem sýnir að þörf er á að endurskoða málið.“