Vonast til að Norræna komi um hádegi á föstudag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. ágú 2023 13:21 • Uppfært 09. ágú 2023 13:44
Vonast er til að Norræna komi til Seyðisfjarðar á föstudag, rúmum sólarhring á eftir áætlun. Ferð hennar tafðist vegna ofsaveðurs sem gekk yfir Jótland í gær.
Norræna beið af sér veðrið úti fyrir Lillesand í Noregi í gær. Gul viðvörun var upphaflega gefin út fyrir daginn í dag líka en veðrið virðist hafa gengið fyrr niður en áætlað var.
Þess vegna komst Norræna að bryggju í Hirtshals fyrir hádegi. Hún er nú að leggja af stað þaðan og er væntanleg til Þórshafnar í Færeyjum klukkan níu að staðartíma annað kvöld.
Vanalega kemur Norræna til Seyðisfjarðar klukkan 8:30 á fimmtudagsmorgnum en seinkunn vegna veðursins er orðin meira en sólarhringur. Núna er búist við að ferjan komi til Íslands á hádegi á föstudag. Með henni er von á um 1000 farþegum og 400 farartækjum.
Ljóst er að tafirnar nú eru keðjuverkandi en Norræna er keyrð á svo að segja fullum afköstum á sumaráætlun. Hún siglir aftur frá Seyðisfirði til Færeyja og þaðan til Hirtshals. Miða við upplýsingar á vef Smyril-Line verður Norræna sléttum sólarhring á áætlun þegar hún kemur til Hirtshals á sunnudag í stað laugardags.
Framundan er hins vegar síðasta vikan á sumaráætluninni. Eftir það siglir ferjan vikulega en ekki tvisvar í viku milli Færeyja og Danmerkur auk þess að stoppa í tvo daga en ekki tvo klukkutíma á Seyðisfirði.
Mynd: SigAð