Skip to main content

Vonast til að ný flugvél auki sveigjanleika í innanlandsflugi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2023 09:52Uppfært 05. maí 2023 09:54

Icelandair hefur bætt við sig nýrri Bombardier Q400 vél, þeirri þriðju í flota félagsins. Henni er ætlað að auka sveigjanleika í innanlandsflugi. Áætlanir reyndust brothættar í fyrra þegar bilanir komu upp í vélum félagsins.


Nýja vélin verður notuð í flugi til Norðurlandanna og Bretlandseyja seinni hluta maí og byrjun júní en að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, er hún fyrst og fremst ætluð til að styðja við flug innanlands og til Grænlands. Ferðirnar í júní til annarra áfangastaða séu tilfallandi vegna ytri aðstæðna.

Guðni segir flugáætlun Icelandair innanlands í sumar svipaða og í fyrra. Sú breyting hefur nú orðið að flug til Grænlands hefur verið flutt til Keflavíkur sem aftur á að styrkja innanlandsflugið. „Það, auk nýju Q400 vélarinnar, býr til aukinn sveigjanleika í Reykjavík fyrir innanlandsflugið.“

Guðni segir flug milli Reykjavíkur og Egilsstaða hafa gengið vel. Stundvísi hafa verið 84% og af 160 ferðum þar á milli hafi aðeins fjórum verið aflýst, tveimur vegna tæknilegra atriða og tveimur vegna veðurs. „Útlitið fyrir sumarið er því gott en það er þannig í flugrekstri að þrátt fyrir góðan undirbúning geta auðvitað alltaf komið upp aðstæður sem valda röskunum.“

Nýja vélin er með 76 sætum fyrir farþega. Hún var áður í breska flugfélagsins FlyBe sem varð gjaldþrota í byrjun árs. Hún hefur fengið einkennisstafina TF-FXE. Vélin er komin til landsins og er nú undirbúin undir áætlunarflugið sem vonast er til að hún hefji í mánuðinum.