Skip to main content

Vonar að trjágróðurinn sleppi óskaddaður frá páskahretinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. apr 2025 10:30Uppfært 14. apr 2025 11:08

Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, segir enn of snemmt að segja til um hvort kuldahretið sem hafið er á Austurlandi skemmi trjágróður sem kominn var af stað eftir hlýindi í mars og byrjun apríl.


„Það er búið að vera heitt þannig að sumartegundir eins og lerkið voru vaknaðar. Lerkið er nálalaust á veturna en þær voru sums staðar farnar að gægjast út.

Eins voru runnar í görðum eins og mispill og heggur komnir ágætlega af stað. Ég var hins vegar ekkert farinn að sjá á íslenska birkinu, það lætur ekki plata sig eftir að hafa verið hér í þúsundir ára,“ segir Þór.

Umskipti á pálmasunnudegi


Marsmánuður var með hlýrra móti og í síðustu viku var sól og tíu stiga hiti upp á hvern dag. Aðfaranótt sunnudags skipti algjörlega um gír, kominn var snjór víðast hvar og í gær bætti stöðug í hann.

Út vikuna er síðan spáð norðan og síðan austanátt, einhverri úrkomu og vindi en hita um frostmark, heldur fyrir ofan það að degi til. Þór segir að ef ekki geri mikið eða langvarandi frost eigi gróðurinn sem kominn var af stað að sleppa.

Verst ef það yrði mikið frost


„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem koma hlýir kaflar snemma að vori. Stundum hefur allt sloppið en við höfum líka séð skemmdir í lerki eftir hret sem hefur komið eftir að lerkið lifnaði við.

Nú virðist gróðurinn hafa farið af stað nokkrum vikum fyrr en í meðalári. Til þessa hefur veðrið verið milt og ekki fryst að ráði. Ég vona að gróðurinn sleppi ef þetta verður ekki verra. Það er þó erfitt að segja og það kemur ekki í ljós fyrr en vorar af alvöru hvort það hafi orðið skemmdir.“

Lerki í Fellabæ í síðustu viku.