Vonbrigði með fordómafulla vísu frambjóðanda á árshátíð

Bæði Alcoa Fjarðaál og Fjarðalistinn, sem býður fram til sveitarstjórnarkosninganna í Fjarðabyggð, lýsa yfir vonbrigðum og andstyggð á vísu sem frambjóðandi af listanum fór með á árshátíð Fjarðaáls á föstudagskvöld.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar steig Elías Jónsson, starfsmaður Alcoa Fjarðaáls sem skipar tólfta sætið á lista Fjarðalistans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á laugardag, á svið á árshátíð fyrirtækisins á föstudagskvöld og fór með meinta gamanvísu sem fól í sér bæði kynþáttafordóma og kvenfyrirlitningu. Elías hefur þegar beðist afsökunar á vísunni á opinberum vettvangi.

Stjórn Fjarðalistans kom saman til fundar vegna atviksins á laugardagsmorgunn. Í yfirlýsingu stjórnar, sem birtist sama dag á vef framboðsins, segir að Fjarðalistinn sé listi allra sem láti sig varða mannréttindi, jöfnuð og velferð alls fólks. „Grín“ á kostnað minnihlutahópa eða jaðarsettra geti því aldrei verið á hans vegum eða með hans samþykki. „Fjarðalistinn lýsir andstyggð sinni á öllum fordómum, svo sem rasisma, kvenfyrirlitningu og fötlunarfordómum.“

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls, segir málið vera komið í ákveðið ferli innan fyrirtækisins þótt Fjarðaál hafi ekki beina stjórn á þeim sem taki til máls á árshátíðinni. Vonbrigði hafi verið að heyra starfsmanninn tala með hætti sem sé sannarlega ekki í anda gilda Fjarðaáls, né þess sem það vilji standa fyrir. „Þetta kennir okkur að gefast aldrei upp á að fræða fólk og að við getum alltaf bætt okkur.“

Í grein sem frambjóðendur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs birtu á Austurfrétt í morgun eru kynþáttafordómar og kvenfyrirlitning frambjóðandans fordæmd og farið fram á að fólk taki ábyrgð á orðum sínum og gjörðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.